Selir á flugsundi við Jökulsárlón

Jökulsárlón 12. júlí 2010

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einn að þeim stöðum við hringveginn þar sem varla er hægt annað en að stoppa og stíga út úr bílnum enda er þar eiginlega alltaf eitthvað nýtt að sjá. Vegna sjávarfalla er mismikill straumur í ánni og í háflæði getur áin í raun runnið afturábak og inn í lónið. Þangað berst því eitthvað af söltum sjó og eitthvað af fiski svo sem loðnu og síld, hver veit nema makríllin sé að þvælast þarna líka eins og víðar að undanförnu. Selirnir elta svo góðmetið inn í lónið og má því oft sjá einstaka selhaus skjótast upp öðru hvoru í lóninu.

Þegar ég kom þarna mánudaginn 12. júlí var mjög mikill straumþungi úr lóninu, sérstaklega í kringum stóra jaka sem voru strandaðir nokkru fyrir ofan brúnna þannig að eiginlegar flúðir mynduðust. Þarna var mikið líf því selirnir voru staðráðnir í því að láta ekki straumþungann stöðva sig og tóku á öllu sínu í von um smáfiskaveislu í sjálfu lóninu. Þegar selirnir stukku minntu þeir helst á höfrunga eða laxfiska, en allavega fannst mér nýtt að sjá seli í svona alvöru aksjón.

Að sjálfsögðu var reynt að mynda þessi selastökk, en erfitt var að sjá út hvar og hvenær næsta stökk færi fram. Þó tókst mér að ná einum á fluginu og er hann bara nokkuð sportlegur að sjá og hefur greinilega náð góðum tökum á flugsundinu enda syndur sem selur.

Selaflug


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er flott að sjá. Maður horfir eftir sel að stökkva næst þegar maður á leið hjá og við réttar aðstæður.

Grefill (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband