Útrás kalda Ameríkuloftsins

Á vefnum NASA Earth observatory er að finna ágæta gervitunglamynd frá 25. janúar þar sem vel má sjá hvað gerist þegar ískalt vetrarloftið yfir Norður-Ameríku streymir yfir Atlantshafið. Niðri til vinstri á myndinni er New York, lengra í norðaustur má sjá Þorskhöfða og lengra í sömu átt er Nova Scotia sem tilheyrir Kanada. Þarna hafa undanfarið verið talsverðir kuldar eins og sjá má á hvítri jörðinni sem ætti svo sem ekki að vera óeðlilegt á þessum árstíma.

Ameríkuloft

Þegar þetta ískalda loft blæs yfir hafið, sem auðvitað er mun hlýrra, þá myndast þessar fínu skýjarákir sem ná lengst út á haf. Án þess að ég ætli út í mikla veðurfræði þá gerist þetta þegar kalda meginlandsloftið mætir mun hlýrra yfirborði sjávar. Þá hitnar neðsta lag loftsins þannig að uppstreymi myndast, þ.e.a.s loftið verður óstöðugt. Þetta loft þróast síðan oft yfir í að verða skúra- eða éljaloft sem gjarnan nær alla leið til Íslands. Það er samt ekki víst að akkúrat þessi ský hafi náð til okkar því vel getur verið að þau hafi dagað uppi mun sunnar en kalda loftið er annars ágætis hráefni í nýja lægðarmyndum.

Þetta fyrirbæri er andstæða þokusúldarinnar sem oft ríkir hér sunnanlands að vetrarlagi enda er þar á ferð hlýtt suðlægt loft að upplagi sem hrakist hefur norður og mætt kaldari sjó. Þá þéttist rakinn við yfirborð í neðstu loftlögunum þannig að lágskýjabreiður myndast, þokuloft eða súld. En loftið er þá hinsvegar stöðugt því mildara loftinu líður betur fyrir neðan það kalda.

Myndin sem fylgir er bara hluti af stórri mynd í hárri upplausn og er að finna á þessa slóð ásamt almennilegri útskýringum: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=49254


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband