Hinn skrýtni útsynningur

Snjórinn sem féll hér í borginni í nótt (19. mars) minnir á að veturinn er ennþá allsráðandi. Vorið mun væntanlega koma samkvæmt venju einhverntíma í apríl þegar sólin er komin það hátt á loft að snjórinn á sér ekki viðreisnar von yfir daginn. Veðrið sem olli snjókomunni í nótt telst að vísu ekki til útsynnings eins og sú eindregna snjóatíð hefur einkennst af hér suðvesturlands undanfarið. Útsynnings-éljaveður hefur lengi verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Það er eitthvað skemmtilegt við þessi snjóél sem skella á úr suðvestri eins og hendi sé veifað og fyrr en varir skín sólin á ný þangað til næsta éljagusa hellist yfir. Ég veit að það eru ekki allir sem dásama þetta veðurlag, oft veit fólk ekki hvaðan á það stendur veðrið þegar svona stendur á og ekki hafa allir hugmynd um að svona suðvestanátt er kölluð útsynningur. Gjarnan er þetta einfaldlega kallað skrýtið veður, jafnvel þó þetta sé frekar algengt veðurlag hér að vetralagi. 

Éljagangurinn hefur auðvitað ekki verið samfelldur því inn á milli hafa verið blautir dagar eða heiðríkir. Útsynningurinn hefur samt alltaf náð sér á strik á ný og í meira mæli en verið hefur marga undanfarna vetur. Þetta minnir helst á köldu árin hér í kringum 1980. Ég veit ekki hversu lengi þetta veðurlag mun haldast en svo virðist sem hvíti liturinn ætli að verða áberandi eitthvað áfram.

Þann 7. mars var ég staddur með myndavélina í Öskjuhlíð og fékk þá gott sýnishorn eins og sést á þessum þremur myndum sem teknar voru með u.þ.b. tveggja mínútna millibili kringum klukkan 12 á hádegi.

7. mars 11:57

7. mars 11:59

7. mars 12:01


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband