Loftvogin

Loftvogin

Eitt af grundvallar heimilistækjum á mínu heimili er loftvogin sem hangir uppi á vegg á góðum stað í íbúðinni. Þetta er loftvog af tegundinni Barigo sem mun vera gott og þekkt merki í þessum bransa. Loftvogin hefur reynst vel, allavega virðist henni bera vel saman við opinberar tölur bæði í háum og lágum þrýstingi. Loftvogina nýtti ég að vísu betur fyrir daga internetsins en þá las ég á hana í lok hvers dags til að skrá niður loftþrýstingin ásamt öðrum veðurþáttum en núna hef ég veðurstofuvefinn aðallega til hliðsjónar við þær skráningar.

Myndin af loftvoginni er tekin seint á fimmtudagskvöldi 24. mars og sýndi þá vogin 1026 millibör sem telst í hærra lagi en er samt nokkuð algengt á vorin. Dagana 23.-24. febrúar stóð loftvogin hinsvegar hálfhring neðar og þá hef ég merkt með handsnúna vísinum við 959 mb sem er mjög lágur þrýstingur

Einhverju sinni þegar djúp lægð var hér á sveimi, sá ég ástæðu til að framlengja kvarðann með pennastrikum þannig að hann næði allan hringinn. Eini gallinn á þessari loftvog finnst mér nefnilega vera kvarðinn sem nær bara niður í 954 millíbör, en það er eiginlega fulllítið í ljósi þess hversu djúp Íslandslægðin okkar getur orðið. Í hina áttina nær kvarðinn alveg uppí 1073 millíbör sem er alveg yfirdrifið enda háþrýstimetið fyrir landið „ekki nema“ um 1058 millíbör og fer mjög sjaldan yfir 1045 mb. Þessi aukakvörðun er nú horfin að mestu en það má samt enn greina nokkra punkta.

Allralægstu loftþrýstingsgildin standa oftast stutt yfir enda bundin við lægðarmiðjuna sjálfa sem getur verið á hraðri ferð framhjá ef miðjan nær þá á annað borð að vera í næsta nágrenni. Það er því þannig að þótt ýmsar djúpar lægðir hafi verið hér á sveimi þá hef ég samt ekki, eftir að loftvogin kom í hús sumarið 1992, skráð lægri loftþrýsting á miðnætti en 951 millibar. Það var á miðnætti hins 10. janúar 1993 þegar ein af allradýpstu lægðum sem hér hafa komið var á sveimi suðaustur af landinu. Sú mældist 915 millibör samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Líklega var það þá sem ég bætti við kvarðann.

LoftvægistaflaÁ mynd sem ég fann á heimasíðu loftvogaveldisins Barigo, er ágætis útskýring á sambandi loftþrýstings, hæðar, hita og sennilega þéttleika loftsins. Minna af andrúmslofti er fyrir ofan mann eftir því sem maður er ofar sjálfur og því lækkar þrýstingur með hæð. Miðað við 1013 millíbör við sjávarmál má gera ráð fyrir 899 millibörum í 1000 metra hæð en slíkan lágþrýsting er hugsanlega hægt að finna í miðju fellibylja við sjávarmál. Á Everesttindi í 8848 metra hæð er loftvægið ekki nema um 300 millíbör og frostið yfir 40 stigum.


Þetta var um sem sagt um loftvog og loftþrýsting. Kannski þykir gamaldags að tala um millíbör en ekki hektópasköl. Gildin munu samt vera þau sömu en millíbör finnst mér þægilegra orð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sammála að millibör er þægilegra og viðráðanlegra orð en þetta hektópaskal sem í ofanálag er oftast skrifað hPa og maður þarf alltraf að passa sig að skrifa ekki pHa eða eitthvað. Vesen að þurfa að nota stóran staf inni í þessu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.3.2011 kl. 18:11

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ekkert nema vesen.

Trausti Jónsson, 30.3.2011 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband