15.6.2011 | 21:31
Af snjóalögum sunnan Hofsjökuls
Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls þar sem jeppamannafélagið er með skála. Upplýsingarnar gref ég upp af eldri vef Veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili.
Setur er í 693 metra hæð og er þar iðulega hvít jörð allan veturinn og snjódýptin vel á annan metra seinni hluta vetrar samkvæmt mælingum. Snjórinn er venjulega í hámarki í apríl og horfinn um miðjan júní og eins og sjá má á línuritinu á það einnig við í ár þrátt fyrir nokkuð svala tíð undanfarið. Ég fylgist að vísu ekki alltaf með upp á dag hvenær snjórinn hverfur en í ár hitti það alveg á 15 júní.
Framan af vetri var að mjög lítil snjósöfnun á Setri en úr því var bætt eftir áramót af miklum ákafa uns vorsólin fór að hafa betur. Mér sýnist vera þó nokkur samsvörum milli snjódýptar þarna upp undir Hofsjökli og ástandsins almennt á suðurhelmingi landsins, en væntanlega síður norðan jökla. Maður sér þetta til dæmis ágætlega á Esjunni sem var nánast snjólaus um síðustu áramót en bætti síðan heilmiklu á sig.
Þarna sést líka vel hvað veturinn 2009-2010 (ljósblá lína) var snjóléttur þótt hann hafi byrjað nokkuð bratt. Árið í fyrra skilaði enda mjög neikvæðri afkomu helstu jökla landsins en auk þurrka bættust við langvinn sumarhlýindi og öskufall úr Eyjafjallajökli. Skaflar Esjunnar hurfu í samræmi við þetta óvenjusnemma síðasta sumar eða um miðjan júlí. Það eru varla nokkrar líkur á að þeir hverfi svo snemma í ár, þeir ættu þó að hverfa fyrir næstu vetrarkomu sé tekið mið af síðustu árum.
- - - -
Minna má á veðurgrafíska myndalbúmið hér á síðunni þar sem þessu línuriti hefur verið komið fyrir ásamt öðru veðurtengdu sem ég hef dundað mér við að setja saman.
Ljósmyndin af Setri er tekin af Kjartani Pétri Sigurðssyni.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Facebook
Athugasemdir
Fróðlegt og skemmtilegt, takk!
Ólafur Eiríksson, 16.6.2011 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.