22.6.2011 | 18:47
Þökulagning á þurrkatímum
Það hefur ekki rignt mikið í Reykjavík það sem af er sumri og reyndar ekki nokkur síðustu sumur. Eiginlega tilheyrir það fortíðinn að hægt sé að tala um að í Reykjavík sé sífelld rigning eða súld. Ekki virðast allir búnir að átta sig á þessu nýja veðurlagi eins og til dæmis þeir sem í blautu bjartsýniskasti halda að það sé bara hægt að leggja grasþökur í upphafi sumars og þurfa svo ekki að sinna því meir. Grasflatirnar á umferðareyjum við tónlistarhúsið Hörpu eru ágætt dæmi um þetta en þar var fyrir um mánuði síðan tyrft með iðagrænum þökum sem síðan hafa ekki gert annað en að þorna upp og gulna meir og meir. Smá væta af og til hefur ekki mikið að segja og ekkert nema úrhellisrigning í gamla stílnum virðist geta komið til hjálpar.
Snemmsumarið er að öllu jöfnu þurrasti tími ársins hér í Reykjavík. Meðalúrkoma júnímánaðar er sögð vera 50 millimetrar en sú mánaðarúrkoma náðist síðast í júní 2006 og þar áður 2003. Síðustu fjögur árin hefur júní-úrkoman ekki verið yfir 30 millimetrum og fátt sem bendir til þess að 50 millimetrunum verði náð í þessum mánuði. Það er þó aldrei að vita.
Það er annars athyglisvert hvað veðurgæðum getur verið misskipt á landinu. Sumsstaðar norðanlands eiga menn við kal í túnum að stríða og almennilegt sumar lætur bíða eftir sér. Norðlensku Mæjorkahitarnir og gæðasumrin eru að verða sífellt fjarlægari í minningunni sem er eiginlega það sama og hægt er að segja um Reykvísku rigningarsumrin. Tíðarfar á það til að festast í einhverju fari á vissu árabili. Það tekur síðan stundum jafn mörg ár að aðlagast nýjungum praktískt. Í samræmi við það taka kannski við mikil rigningarsumur á sama tíma og menn læra hvernig á að standa að þökulagningum í þurrkatíð. Kannski fer líka að rigna strax eftir að þessi bloggfærsla fer í loftið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.