1.7.2011 | 18:36
Hversu gott var veðrið í júní?
Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júnímánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn. Aukaafurð þessara skráninga er einkunnakerfið sem einhver ætti að vera farinn að kannast við. Einfalda útskýringin er að það tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans en yfirlit sumarmánaðana munu birtast hér í sumar.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn júní. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta júnímánaðar miða ég meðallagið við 9-13 stig en seinni hlutann 10-14.
Júní 2011 - Einkunn 4,9.
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 4,9 stig sem telst nokkuð góð einkunn og yfir meðallagi. Mánuðirinn var eindreginn norðanáttamánuður og því mjög misskiptur í gæðum eftir landshlutum og þar sem verst lét var veðrið hvorki mönnum, skepnum né fuglum bjóðandi. Hitinn í Reykjavík var lægri en hefur að meðaltali verið síðustu 10 ár en þó fyrir ofan opinberan meðalhita (1961-90). Fyrstu 10 dagarnir voru kaldir en umskipti til hins betra urðu eftir að Esjan náði að verða hvít aðfaranótt 10. júní. Slíkt háttalag Esjunnar í júní er mjög óvenjulegt. Annars varð það sólskinið og lítil úrkoma sem gerði útslagið í sambandi við ágæta einkunn mánaðarins. Veðurbókin hugsar sem fyrr ekkert um gróðurinn sem hefði alveg þegið meiri úrkomu. Aðeins tvisvar sá ég ástæðu til að skrá úrkomu en í bæði skiptin skein sólin einnig sama daginn. Enginn dagur fékk lægri einkunn en 3 en lökustu dagarnir voru allir á hinum köldu upphafsdögum mánaðarins. Síðasta daginn var ekki um annað að ræða en að gefa sparieinkunnina 8 enda voru allir veðurþættirnir upp á það besta.
Oft þarf að leggjast í miklar bollaleggingar þegar finna á viðeigandi lýsingu á meðalveðri dagsins enda veðrið oft ansi breytilegt. Stundum þarf að gera einhverjar málamiðlanir til að fá sem sanngjörnustu útkomu en þó innan þess marka sem skráningarkerfið býður upp á.
Þá er það samanburður við fyrri ár. Síðan dagbókarskráningar hófust árið 1986 eru þrír júnímánuðir jafnir í 1.-3. sæti með 5,3 í einkunn:
Júní 1991 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður var eftirminnilegur góðviðrismánuður enda mjög sólríkur og úrkomulítill. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskíra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi.
Júní 1998 - Einkunn 5,3. Hlýr mánuður þar sem meðalhitinn náði að skríða yfir 10°C, en það hafði ekki gerst í júní í Reykjavík síðan 1966. Margir fínir sólardagar voru í mánuðinum en að auki er þetta hægviðrasamasti júní sem ég hef skráð.
Júní 2008 - Einkunn 5,3. Mánuðurinn var enn ef þeim sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og auk þess mjög þurr og hlýr. Hér hefði fengist enn hærri einkunn ef nokkrir vindasamir dagar hefðu ekki dregið einkunnina niður.
Júní 2010 - Einkunn 5,2. Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og víðar, meðal annars í Stykkishólmi. Eins og undanfarin ár var nokkuð þurrt en sólskinsdagar voru þó ekki fleiri en venjulega.
Og þeir verstu:
Júní 1988 - Einkunn 3,6. Versti sumarmánuðurinn sem ég hef skráð. Þetta var vindasamur og kaldur rigningarmánuður og sólarminnsti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Ekki bætti úr skák að verstu veður mánaðarins komu einmitt á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Júní 1992 - Einkunn 4,0. Afar kaldur mánuður og sennilega frægastur fyrir Jónsmessuhretið. Ásamt júní 1978 er þetta kaldasti júní sem komið hefur síðan 1922.
Júní 2006 - Einkunn 4,1. Hér voru einfaldlega allir veðurþættir daprir án þess þó að um söguleg frávik hafi verið að ræða.
- - - -
Ljósmyndin af Esju er tekin að morgni 10. júní
Meginflokkur: Veður | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 1.8.2011 kl. 13:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.