Reykjavíkurhiti og heimshiti

Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Línuritið sem hér fylgir hef ég birt áður en það sýnir annarsvegar árshita jarðarinnar í heild frá aldamótunum 1900 og hinsvegar þróun árshitans í Reykjavík, sem í þessu tilviki er hinn einstaki staður. Samskonar mynd birti ég í fyrra en nú hefur árinu 2010 verið bætt við. Þróun heimshitans virkar ef til vill lítilfjörleg í þessum samanburði miðað við það sem oftast er sýnt. Varla er þó hægt að treysta á lítilfjörleg áhrif af þessari hlýnun, haldi hún áfram.

Rvik GISS 1900-2010
Eins og og sést í útskýringu undir myndinni er heimshitinn sýndur sem frávik frá meðalhita eins og hann er skilgreindur hjá NASA/GISS, þaðan sem tölurnar koma. Reykjavíkurhitinn er hinsvegar beinn meðalhiti hvers árs. Hitakvarðana hef ég samræmt þannig að núllið í heimsmeðalhita er sett á 4,5 gráður í Reykjavíkurhita. Með þessu fæst ágætis samanburður á lókal og glópal hitafari og þar koma nokkur atriði koma ágætlega í ljós:

  1. Hitasveiflur loftslags á jörðinni í heild eru mun minni heldur en það sem gerist ef einn staður er tekinn fyrir. Þetta á bæði við um sveiflur milli einstaka ára og lengri tímabila.
  2. Báðir ferlarnir sýna langtímahlýnun á tímabilinu sem er nokkuð svipuð í heildina ef sveiflum væri jafnað út. Okkar lókal hlýnun er þó kannski aðeins meiri vegna góðrar frammistöðu síðustu ára.
  3. Á okkar slóðum hafa skipst á tímabil þar sem hitinn er ýmist ofan eða neðan við heimsmeðaltalið. Reykjavíkurhitinn hafði þannig oftast betur á árunum 1925-1965 en lenti oftast undir heimsmeðaltalinu á árunum 1966-1995. Eftir síðustu aldamót hefur Reykjavíkurhitinn hinsvegar slegið heimshitanum við.

Í framhaldinu má velta fyrir sér hvernig framhaldið verður hér á landi. Miðað við hversu mikið hefur hlýnað hér undanfarið er varla hægt að gera ráð fyrir mikið meiri hlýnun alveg á næstunni. Hlýja tímabilið á síðustu öld kom líka nokkuð snögglega þarna á 3ja áratugnum og þar við sat, en þó með talsverðum sveiflum á milli ára. Miðað við lengd þess tímabils gætum við átt 20-30 ára hlýtt tímabil í vændum og kannski bakslag í framhaldi af því. Þó er engu að treysta, það segir sagan. Bakslag gæti svo sem komið hvenær sem er og jafnvel alls ekki. Sveiflur fortíðar þurfa ekki endilega að endurtaka sig í framtíðinni. Þær gætu þó hæglega gert það og jafnvel aukist. Stóra þráláta uppsveiflan sem tengist hnattrænni hlýnun mun þó væntanlega halda áfram hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Úr því maður fylgist með þessu þá má varpa því fram að horfur eru á að árið 2011 verði hlýtt og í góðu samræmi við hitafar síðustu ára, bæði lókal og glópal. Það verður þó ekki eins hlýtt og síðasta ár enda var það mjög hlýtt og reyndar það hlýjasta ásamt 2005 á heimsvísu samkvæmt NASA/GISS gagnaröðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband