Útsynningur á gervitunglamynd

Ég get ekki stillt mig um að birta þessa gervitunglamynd frá því í gær 8. mars sem sýnir éljaloftið sem streymir hingað frá köldu svæðunum í vestri. Ísland er til hægri á myndinni, að mestu í skýjaþykkni, en vel sést í suðurhluta Grænlands. Ískalt heimskautaloftið blæs suður frá ísjaðrinum vestan Grænlands og síðan í fallegum boga suður fyrir og dreifir úr sér og berst með suðvestanáttinni hingað. Það má líka greina lægðarmiðju í éljaloftinu milli Íslands og Grænlands sem á sína sök á þessu öllu saman. Það má vel ímynda sér að mikill vindstrengur sé við suðurodda Grænlands sem éljaböndin raða sér eftir. Vindurinn sem blæs frá ísbrúninni af miklum móð þarna vestanmegin hlýtur að auka útbreiðslu íssins vestan Grænlands auk þess sem nýmyndum íss hlýtur að vera talsverð. 

Éljaloftið myndast þarna eins og endranær þegar kalda loftið berst yfir hlýrri sjó, þannig að neðstu loftlögin hitna og loftið gerist æði óstöðugt. Fer ekki nánar út í svoleiðis en bloggveðurfræðingarnir okkar, þeir Einar og Trausti eru báðir með mjög svo fræðilega pistla um ástand mála.

Útsynningur 8. mars 2012

Myndin er skjáskot af vefsíðu NASA - Arctic Mosaic. Þetta er hluti stórrar myndar af Norður-Heimskautasvæðunum sem uppfærist smám saman á hverjum degi.

Slóðin er: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband