5.10.2012 | 23:18
Berghlaupið mikla í Esjunni
Allt í náttúrunni er breytingum undirorpið og það landslag sem við sjáum í dag er í raun bara stundarfyrirbæri á lengri tímaskala. Ef við horfum til Esjunnar þá hefur hún sennilega ekki mikið breyst síðustu þúsundir ára í meginatriðum. Öðru máli gegndi á meðan ísaldarjöklarnir nöguðu og tálguðu fjallshlíðarnar í hvert skipti sem þeir sóttu fram og skildu svo eftir sig óstöðugar hlíðar þegar nýtt hlýindaskeið gekk í garð. Þannig var það einmitt eftir síðasta jökulskeið (sem ég vil nú bara kalla lok ísaldar) sem varð til þess að feiknastórt berghlaup ruddist niður hlíðar Esjunnar og blasa afleiðingarnar við okkur Reykvíkingum með mjög áberandi hætti.
Sjálfsagt hafa ekki allir velt þessu náttúrfyrirbæri fyrir sér en umrætt berghlaup, eða skriða eða hvað sem menn vilja kalla þetta, nær yfir allt svæðið frá aðalgönguleiðinni á Þverfellshorn og alla leið austur að Kistufelli. Nánar tiltekið frá farvegi Mógilsár í vestri og Kollafjarðarár í austri. Þetta svæði í Esjunni er ólíkt öðrum hlíðum fjallsins, allsett hólum og bungum og heillegum klettabrotum sem hafa fallið fram af efstu brúnum fjallsins og skilið eftir sig greinilegt sár sem er áberandi sem snarbrattir klettaveggir efst undir fjallsbrúninni.
Samkvæmt upplýsingum sem ég fann í skýrslu sem nefnist Ofanflóðahættumat fyrir Kerhóla á Kjalarnesi kemur fram að þetta Kollafjarðarberghlaup sé 3,2 km að lengd frá efstu brún fjallsins og niður á láglendi. Breiddin er 1,9 km og fallhæðin 765 metrar. Um rúmmálið er þetta sagt í skýrslunni: Ef giskað er á 60 m meðalþykkt verður rúmtakið rúmlega 0.2 km3. Á Íslandi eru ekki þekktar nema um 20 berghlaupsurðir sem eru yfir 3 km2 að flatarmáli. Kollafjarðarhlaupið er því í hópi mestu berghlaupa landsins.
Sennilegt þykir að fjallshlíðin hafi hlaupið fram með miklum látum í einni atburðarás - eða svo gott sem. Hámarksaldur er um 11 þúsund ár en annars er ekki vitað með vissu um tímasetningu annað en að þetta er allt annað en nýskeð. Fyrstu árþúsundin eftir ísöld ættu þó að vera líklegust. Annars hefði nú aldeilis verið flott að sjá allan þenna massa skríða fram á sínum tíma og sjálfsagt hafa fylgt þessu drunur miklar og skjálftar ógurlegir. Segið svo að Esjan sé ekki merkileg!
Þessa mynd tók ég ofan af Kistufelli sumarið 2009 og er horft vestur eftir Esjunni í átt að Þverfellshorni en Kerhólakamburinn er fjær. Efri hluti berghlaupsins sést þarna vel.
Efri myndin er tekin frá Öskjuhlíð, 10. október 2011.
- - - - -
Heimildir. Ofanflóðahættumat Fyrir Kerhóla á Kjalarnesi - Skýrsla Hættumatsnefndar Reykjavíkur (PDF-skrá)
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:20 | Facebook
Athugasemdir
Takk Emil fyrir áhugaverðan pistil.
Ágúst H Bjarnason, 7.10.2012 kl. 07:22
Fróðlegt að vanda Emil. Við ræddum þetta líka í gönguferðinni okkar í sumar - enda passandi umræðuefni á brúnum Esjunnar að velta fyrir sér þessu stóra berghlaupi um leið og skaflarnir í Esjunni eru mældir og myndaðir í bak og fyrir.
Sveinn Atli Gunnarsson, 8.10.2012 kl. 16:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.