21.12.2012 | 22:41
Jólasól fyrr og nú
Það er þetta með jólin og sólina. Er tilviljun að þessi orð jól og sól séu svona svipuð. Eru þau kannski bæði skyld orðinu hjól sem vísar í hina eilífu hringrás tímans? Ætli þetta séu þá hjólajól eftir allt? Margt hefur annars verið skeggrætt um samband jólanna og sólarinnar, enda ljóst að í fornum átrúnaði er þetta einn mikilvægasti tími ársins. Jólin eru að vísu ekki akkúrat um vetrarsólhvörf enda hefur mönnum sjálfsagt þótt rétt að hinkra við í tvo til þrjá daga til að fullvissa sig um að sólin færi örugglega hækkandi á ný. Fæðing frelsarans er að auki ærið tilefni fyrir kristna menn til að halda hátíð en væntanlega tengist þetta allt saman í bak og fyrir. Hann Jésú okkar átti það líka til að líkja sér við sólina og kallaði sig jafnvel ljós heimsins og auðvitað reis hann upp á þriðja degi eftir að hafa stigið niður til heljar - reyndar var það á páskum.
Myndina hér að ofan tók ég við Ægisíðu þann 30. desember árið 2009 eða rúmri viku eftir vetrarsólhvörf. Á sínum tíma hefur fjallið Keilir sjálfsagt verið ágætis viðmið um sólargang en sólin sest einmitt á bak við Keili um vetrarsólstöður séð frá þessum stað eða svona nokkurn vegin. Reyndar er það svo að sólargangur tekur örlitlum breytingum með hverju ári, munurinn er þó öllu greinilegri á þúsunda og tugþúsunda ára skala enda er möndulhalli jarðar breytilegur þegar til mjög langs tíma sé litið
Möndulhalli jarðar sveiflast fram og til baka á 41 þúsund árum. Hallinn er 23,5° um þessar mundir en fer smám saman minnkandi næstu 10 þúsund ár sem þýðir að jörðin er að rétta úr sér og mun gera það þar til hallinn verður kominn niður í 22,1°, þá mun hallinn aukast á ný uns hann verður 24,5°. Jörðin er svo til hálfnuð með að rétta úr sér en við það færist heimskautsbaugurinn smám saman til norðurs. Þróunin næstu 10 þúsund ár eru því í áttina að meiri birtu yfir vetrartímann en að sama skapi minni birtu yfir sumartímann. Þessi birtusveifla getur ráðið úrslitum um komu eða endalok jökulskeiða því minnkandi sumarbirta á norðurslóðum eins og þróunin er núna, er talin valda kólnun og stækkandi jöklum að öllu jöfnu. Það passar einmitt vel við þróun síðustu árþúsunda eða allt þar til nú upp á síðkastið að eitthvað er farið að valda hlýnun og bræða jöklana af miklum móð á sumrin.
Fyrir þúsund árum og rúmlega það hefur væntanlega verið sjáanlegur munur á afstöðu sólarinnar til okkar miðað við daginn í dag. Þá hefur möndulhalli jarðar verið aðeins meiri og skammdegið að sama skapi aðeins meira. Ef fyrrnefnd ljósmynd hefði verið tekin á sama stað á sama tíma fyrir þúsund árum hefði sólin því að öllum líkindum þegar verið sest og horfið aðeins fyrr á bakvið fjöllin og þá væntanlega talvert nær hinum pýramídalagaða Keili, sem sjálfsagt hefur lítið breyst á þúsund árum. Sögðu indíánarnir ekki annars að ekkert vari að eilífu nema fjöllin? Kannski segja fræðin annað í dag en nokkur þúsund ár eru samt ágætis eilífð á mannlegum tímaskala.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.