4.5.2013 | 01:28
Stóra snjódagamyndin, 1986-2013
Hér í Reykjavík hafa menn ekki þurft að kvarta yfir snjóþyngslum á liðnum vetri ólíkt því sem verið hefur Norðanlands. Það snjóaði vissulega endrum og sinnum hér í borginni en þó varla neitt til að tala um, fyrir utan kannski ófærðarmorguninn 6. mars. Sá snjór dugði reyndar stutt og var horfinn tveimur dögum síðar. Langoftast var jörð alauð enda voru hávetrarmánuðirnir janúar/febrúar óvenju hlýir og snjóléttir eftir því.
Þetta má meðal annars sjá á stóru snjódagamyndinni sem nú hefur verið uppfærð og sýnir hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti allt aftur til október 1986. Myndin er unnin upp úr mínum eigin athugunum og geta því verið einhver frávik frá opinberum athugunum sem gerðar eru Veðurstofutúni að morgni til. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.
Samkvæmt þessum athugunum mínum eru snjódagar liðins vetrar aðeins 24 talsins og hafa ekki verið færri frá upphafi skráninga. Fyrra snjóleysismetið voru 32 dagar hlýindaveturinn 2002-2003 og svo voru 33 dagar veturinn 2009-2010, þannig að þetta er nokkuð afgerandi óopinbert met.
Í hinn endann er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki eins mikill að magni. Langvinnir snjóakaflar hafa ekki verið tíðir hin síðari ár nema reyndar þarna frá nóvember 2011 til janúar 2012 þegar við fengum einn alhvítasta desember sem um getur.
Nú er bara að vona að vorið hrökkvi almennilega í gang. Einnig að garðsláttuvélar hrökkvi liðlega í gang því stutt er í að grasið fari að spretta í görðum borgarbúa. Á heimskautasvæðum Norðanlands vonumst við líka til að klakabrynjan hörfi sem fyrst af túnum og fótboltavöllum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.