18.4.2014 | 21:28
Trúarhátíð trúleysingja?
Nú er páskahátíð og þjóðin komin í páskafrí. Fyrsti er það skírdagur sem reyndar svona hálfheilagur dagur þar sem við minnumst síðustu kvöldmáltíðarinnar og svo föstudagurinn langi, sorgardagurinn mikli þegar Jésú var krossfestur. Stund milli stríða er svo laugardagurinn þar sem ekkert sérstakt gerðist. Páskadagurinn er svo stærsti dagurinn en þá var sá mikli atburður í den að frelsarinn sigraði dauðann og reis upp af gröf sinni. Páskahátíðinn á sér að vísu lengri sögu en kristnin. Engu að síður eru atburðir þessara daga, grundvallaratriði í kristindómnum enda sýnir upprisan að Jésú var ekki bara hver annar vandræðagemsi sem þóttist vera eitthvað meira en aðrir. Hér og víðar um lönd kallar þetta á auka hátíðisdag sem við köllum annan í Páskum. Framhaldsagan heldur áfram nokkru síðar þegar við tökum okkur aftur frí í miðri viku og minnumst uppstigningar Jésú til himna þar sem hann hefur síðan setið við hægri hönd Guðs föður almáttugs, dæmandi lifendur og dauða. Ekki má svo gleyma Hvítasunnudegi sem fæstir vita hvers vegna er haldin hátíðlegur en eitthvað hlýtur það að vera merkilegt því það þarf mánudaginn einnig til að klára það mál.
Stærstur hluti þjóðarinn telst vera kristinn enda eru flestir bæði skýrðir og fermdir. Öðru máli gegnir þó um sannfæringuna, hvað þá kirkjusókn. Fleiri eru þeir sennilega sem amast við klingjandi kirkjuklukkum á sunnudagsmorgnum heldur en fara í kirkju og þó að hér sé Þjóðkirkja þá má varla minnast á kristna trú við skólakrakka. Kristin gildi má heldur ekki minnast á landsfundum stjórnmálaflokka jafnvel þótt sjálfur Guðdómurinn sé til umfjöllunar í Þjóðsöngnum okkar. Blessunarlega má þó óska eftir blessunar Guðs á örlagastundum.
Hvað er hér annars á ferðinni? Er rétt að gefa trúlausri þjóð frí frá vinnu í þrjá daga vegna Páskanna eins og ekkert sé sjálfsagðara? Skólar gefa meira segja enn lengra frí, jafnvel eftir verkfall. Vikulangt Páskafrí eða meira skal það vera í trúlausum skólum landsins. Trúfrelsi er auðvitað sjálfsögð mannréttindi og enginn er skyldugur til að trúa nokkru frekar en hann kýs. Annað væri líka eitthvað öfugsnúið því það að trúa eða trúa ekki, er einlæg afstaða hvers og eins. Eiginlega finnst mér þetta þó vera þannig að úr því það er verið að gefa okkur alla þessa frídaga þá mættum við alveg launa það með því að hugsa með dálitlum jákvæðum huga til kirkjunnar og þess boðskaps sem þar er fram borinn, hvort sem við trúum á upprisu Jésú Krists eða ekki. Og ef menn hinsvegar vilja endilega ögra með því að spila Bingó opinberlega á föstudaginn langa þá er eiginlega grundvöllur fyrir þessum frídögum horfinn og menn gætu allt eins farið að vinna. Það er reyndar gert í henni Ameríku, þar sem páskarnir eru bara hver annar sunnudagur eða svona rétt rúmlega það.
Gleðilega páska!
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.