15.9.2014 | 18:24
Þá er komið að hafísnum
Eins og komið hefur fram í fréttum þá er hafísinn með meira móti nú í lok sumars miðað við það sem oft hefur verið á sama tíma hin síðari ár. Hafísútbreiðslan er reyndar mjög svipuð og í fyrra en mun meiri en hún var fyrir tveimur árum. Slík tíðindi eru fréttnæm út af fyrir sig en hvort þetta sé til marks um meiriháttar viðsnúning í útbreiðslu hafíssins er ekki gott að segja. Ísinn er enn í mun verra ástandi en hann var undir lok síðustu aldar, þrátt fyrir að tvær síðustu bræðsluvertíðir hafi verið með lakara móti miðað við tímabilið frá 2007. Hafísútbreiðslan sveiflast talsvert á milli ára. Hún var einstaklega lítil metsumarið 2012, reyndar svo lítil að þrátt fyrir um 60% aukningu íssins nú, þá er enn ekki hægt að tala um að ísinn hafi náð útbreiðslu sem þótti eðlileg fyrir 10 árum. Hinsvegar þýðir útkoman nú að það er ólíklegra en áður að hafísinn hverfi á Norður-Íshafi að sumarlagi á allra næstu árum. Einnig sýna undanfarin tvö sumur að hafísbreiðan getur braggast á ný eftir slæma útreið. Það virðist því ekki vera um að ræða neinn afgerandi örlagapunkt að ræða í hafísmagni eða “point of no return” upp á útlensku. Að minnsta kosti náði metbræðslusumarið 2012 ekki þeim punkti. En þá er að líta á ýmis kort og línurit sem ég ætla reyna að kjafta mig í kringum í miklu máli.
Þannig lítur hafísútbreiðslan út þann 15. september en litaskiptingin miðast við þykkt íssins. Kortið er frá Naval Research Labaratory: http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html. Helsta aukningin miðað við mörg síðustu ár er svæði í Austur-Síberíuhafi þar sem finna má þunna og gisna ísbreiðu í fjólubláum lit á kortinu sem nær suður fyrir 75°N. Ísinn á þessu svæði gæti þó enn verið að hörfa og gisna þrátt fyrir að sólin sé verulega farin að lækka á lofti. Einnig er talsvert mikill ís austur af Svalbarða sem er nýlunda miðað við fyrri ár og gott betur. Greinilegt er að norðanáttir hafa verið þarna ríkjandi sem hafa hrakið ísinn áfram. Það má þó hafa í huga að ísinn á þessum slóðum Atlantshafsmegin, er að megninu til kominn til að fara og á ekki afturkvæmt í partíið, venjulega leiðin liggur þó suður með Astur-Grænlandi en þar er reyndar ekki mikið um ís núna.
Svo er það gamli góði ísinn á Beauforthafi norður af vesturhluta Kanada en hann hefur þraukað ágætlega í sumar. Þangað vill gamli ísinn leita, jafnvel eftir nokkra snúninga um íshafið. Að þessu sinni býr svæðið vel af þeim talsverða ís sem lifði af sumarið í fyrra og meira mun væntanlega bætast í forðann eftir þetta sumar.
Á milli Kanadísku heimskautaeyjanna liggur hin svokallaða norðvestur-siglingaleið milli stóru úthafanna. Þar er allt lokað í ár fyrir stór flutningaskip en norðvesturleiðin er að öllu jöfnu mun erfiðari en norðausturleiðin norður fyrir Síberíu.
En þetta er ekki allt á einn veginn því að þessu sinni er einmitt mjög stórt opið hafsvæði norður af Síberíu í Laptev-hafi en þar nær opið haf norður fyrir 85°N sem einhvern tíma hefði þótt merkilegt. Ég hef reyndar minnst á það í fyrri pistlum í sumar að íssvæðin norður af Síberíu hefðu komið veik undan vetri, en þarna eru reyndar ríkjandi landáttir, öfugt við Ameríkuhlutann þar sem ísinn vill safnast fyrir, samanber rauðu og grænu litina á kortinu að ofan.
Samanburður
Það má bera saman hafísinn á milli ára með ýmsum hætti. Sum línurit sýna útbreiðslu, önnur flatarmál og enn önnur rúmmál ísbreiðunnar.
Á línuritinu hér er það flatarmálið sem ræður en þetta er hluti myndar af vefnum Cryosphere Today. Gula línan er 2014 sem á nú í harðri baráttu við árin 2013 og 2009 sem voru þarna nýbúin að ná sínum lágmörkum. Lágmarkið 2014 gæti því haft betur á næstu dögum ef lágmark ársins dregst á langinn. Vel kemur þarna fram hversu afgerandi 2012-lágmarkið var. Nokkuð bil er í næstu lágmök fyrir ofan núverandi lágmark en þar eru allt lágmörk frá árinu 2006 og fyrr, en línuritið nær aftur til ársins 1979 (elstu ártölin klipptust ofan af myndinni).
Á sömu síðu og línuritið er fengið er hægt að nálgast hafískort og bera saman hvaða tvær dagsetningar sem er aftur til 1979. Hér hef ég kosið að bera saman hafísinn þann 13. september 1994 fyrir 20 árum (vinstra megin) við útbreiðsuna sömu dagsetningu 2014 (til hægri). Varla er hægt að hafísinn hafi jafnað sig enda útbreiðslan mun minni í ár en þarna undir lok síðustu aldar.
Ef við hinsvegar berum núverandi lágmark saman við metárið 2012 fæst önnur mynd eins og sjá má hér að neðan. Sumarið 2012 var einstakt og má segja að það hafi verið á undan sinni samtíð og varla samanburðarhæft. Reyndar var það sama sagt um sumarið 2007 sem einnig var mikið tímamótaár. Stökkin niður á við koma nefnilega annað slagið. Þess á milli er ísinn meiri og þá tala sumir um að hafísinn sé að jafna sig.
Kuldar eða eitthvað annað?
Það má velta fyrir sér hvað veldur meiri ís nú en t.d. fyrir tveimur árum. Sennilega er um einhverjar staðbundnar aðstæður að ræða á Norður-Íshafinu. Á kortinu hér að neðan er sýndur yfirborðs-sjávarhiti í heiminum sem frávik frá meðaltali.
Almennt er sjórinn mjög hlýr á norðurhveli, bæði í Atlantshafi og Kyrrahafi þannig að varla er um ræða allsherjar kólnun. Hlýr yfirborðssjór er öllu vandfundnari á suðurhveli og ekki bólar enn á þeim El Nino á Kyrrahafi sem sumir höfðu spáð að gæti skotið upp kollinum í ár, hvað sem síðar verður. Hér norður af Íslandi er sjávarhiti talsvert hár. Kaldan sjó á Norðurhveli er helst að finna norður af Barentshafi sem tengist meiri ís austur af Svalbarða. (http://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/sst.shtml)
Það má kannski frekar skoða línurit yfir meðalhita 2014 á pólasvæðum norðan við 80°N til að fá einhverja skýringu. Frostmarkið er markað af bláu línunni en kvarðinn er annars í Kelvin. Græna línan er meðalhiti 1952-2002. (Myndin er fengin af hafísvef dönsku veðurstofunnar http://ocean.dmi.dk/arctic/meant80n.uk.php)
Samkvæmt þessu var töluvert minna frost á norðurslóðum fyrstu 3 mánuði ársins miðað við meðallag. Vorkoman lét hinsvegar aðeins á sér standa en það virðist skipta mjög miklu máli varðandi sumarbráðnun. Gott start gefur gæfumuninn en hinsvegar getur lægðargangur og skýjahula lækkað mjög meðalhitann þegar sólin er hæst á lofti seint í maí og í júní og það var einmitt tilfellið í ár. Hásumarið einkenndist síðan af hægum vindum á Norður-Íshafi sem þýðir lítið uppbrot á ísnum og þar með var lítið um vakir sem flýta fyrir bráðnun. Þegar sólin lét svo loksins almennilega sjá sig í ágúst var það eiginlega of seint því þá er hún farin að lækka það mikið á lofti að útgeislun hitans undir heiðum heimskautahimni er farinn að vinna á móti.
Tímabilið 2007-2012 á Norður-Íshafinu einkenndist af óvenjumikilli hafíssbráðnun sem varð til þess að ýmsir eygðu þann möguleika að ísbreiðan gæti svo gott sem horfið á örfáum árum. Jafnvel spáðu sumir því fyrir nokkrum árum að ísinn gæti jafnvel verið horfinn strax nú í ár, sem hann hefur greinilega ekki gert. Þetta voru þó bara spár sem sögðu til um möguleika í stöðunni en ekki fullyrðingar um að ísinn myndi hverfa á örfáum árum. Ef réttar aðstæður koma upp nokkur sumur í röð t.d. eins og þær voru sumarið 2012 eða 2007 þá gæti ísinn verið svo til horfinn síðsumars eftir svona 5-7 ár. Það er ómögulegt að spá fyrir um slíkt en möguleikinn ætti þó að vera fyrir hendi.
Það er annars merkilegt að árabilið 2007 til 2012 fer saman við röð sólríkra gæðasumra hér suðvestanlands en mjög misgóðs og sumarveðurs á austurhluta landsins sem og í Norðurhluta Evrópu. Þetta snérist við sumarið 2013 þegar hafísinn jókst á Norður-Íshafinu vegna mikils lægðargangs. Þá skein sólin norðan- og austanlands sem og í Norður-Evrópu en rigndi hér fyrir sunnan. Svipað var uppi á teningnum í ár. Þarna gæti verið eitthvað óljóst samræmi á milli sem ég kann ekki að skýra. Kannski er nóg að horfa bara til Esjunnar til að taka stöðuna í stóru málunum. Skaflinn þar hverfur varla í ár og gerði það alls ekki í fyrra sem voru mikil viðbrigði rétt eins og bakslagið á Norður-Íshafinu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Hafís | Breytt s.d. kl. 22:46 | Facebook
Athugasemdir
Jamm, sveiflukennt er það - en sveiflan niður er svo mikil undanfarna áratugi að það þarf ansi góðan vilja til að halda því fram að hafísinn sé að jafna sig út frá síðustu tveimur árum (sem mig grunar að einhverjir muni halda fram).
Höskuldur Búi Jónsson, 16.9.2014 kl. 08:48
Er Höskuldur áhyggjufullur? :)
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.9.2014 kl. 21:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.