24.1.2015 | 21:35
Spáð í því
Ég tel mig ekki vera neinn sérstakan íslenskuspeking en tel mig þó vita að fyrirsögnin á þessari bloggfærslu er ekki upp á marga fiska, er reyndar beinlínis vitlaus og hin argasta þágufallssýki. Réttara er að spá í það en ekki því. Þessi vitleysa er þó mjög útbreidd í dag og liggur við að maður hitti varla manneskju öðruvísi en hún sé sífellt að spá í því eða þessu. Kannski er þó svo komið að þetta telst bara vera rétt úr því að allir segja það, fyrir utan helstu íslenskuséní, gamalmenni, afdalafólk og mig sjálfan enn sem komið er.
En hvaðan kemur þetta? Ég held að vitleysuna megi rekja til þess að fyrir nokkrum áratugum komst í tísku að pæla (pæl-íði / pæld-íði / pæl-íessu). Sögnin að pæla tekur með sér þágufall og eftir að fattaðist að þetta er gamalt gott íslenskt orð hafa hinir mestu hugsuðir pælt mikið og þótt það smart. Á þessari öld gerðist það svo að pælingarþágufallið yfirfærðist á sögnina að spá. Þess vegna eru nú allir að spá í því en ekki að spá í það eins og sagt var áður. Fyrst voru það aðallega unglingar sem tóku upp á þessu en nú hefur fólk á besta aldri bæst í hópinn. Ástandið er þó ekki orðið það slæmt að fólk sé farið að spá í mér og þér, þökk sé Megasi er hann raulaði spáðu í mig.
En svo má líka spá í tískuna (ekki tískunni). Nú eru helstu fyrirtæki farin að vera stoltir styrktaraðilar allskonar góðra málefna. Stoltur styrktaraðili hljómar vel, enda vel stuðlað og jákvætt. Allt þetta stolt getur þó verið full mikið af hinu góða. Það mætti því gjarnan draga aðeins úr stoltinu eða finna eitthvað nýtt viðskeyti við styrktargleðina. Auglýsingamál getur annars verið uppspretta af ýmsu góðu. Hver man ekki eftir útvarpsauglýsingum á Gufunni þegar Ný dönsk blöð voru auglýst? Væntanlega hefur það verið uppspretta að nafni hljómsveitarinnar sem kallaði sig Nýdönsk. Aðeins minna þekkt hljómsveit á níunda áratugnum en ekki síðri, kallaði sig Oxsmá. Mín prívatkenning er sú nafngiftin hafi komið úr sjónvarpsþáttum sem voru vinsælir á sama tíma: Dýrin mín stór og smá, en ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.
Annað dæmi um áhrif Sjónvarps. Um jól og áramót þegar allir óska öllum gleði og gæfu er gjarnan sagt: Óskum þér og þínum gleðilegra jóla og svo framvegis. Þetta þér og þínum hefur verið í tísku um árabil en var miklu minna notað áður. Hér kem ég með þá kenningu að uppruninn sé frá hinum merka manni Ragnari Reykás sem átti það til að segja setningar eins og Það er alltaf sama sagan með þig og þína fjölskyldu
eða Ég og mín fjölskylda á mínum fjallabíl
það er ekki spurningin. Það er heldur ekki spurning að tilvalið er að enda þetta á Ragnari sjálfum. Það YouTube-myndband sem fannst og rökstyður mál mitt best, fannst mér ekki hið allra fyndnasta (Sjá: Ragnar Reykás og Rússarnir https://www.youtube.com/watch?v=DvOLTMSsCgU) þannig að í staðinn set ég í loftið stílhreinan og alveg týpískan Ragnar Reykás þar sem Erlendur hefur gómað kappann á sínum fjallabíl.
Athugið að ekkert hljóð er á myndinni fyrstu 12 sekúndurnar en það mun vera hluti af gríninu.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 23.1.2015 kl. 22:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.