Tæknispjall

Fyrir mjög mörgum árum sá ég í sjónvarpi allra landsmanna gamla svarthvíta bíómynd, sem ég veit ekkert um, nema hvað hún fjallaði um ungan mann sem á einhvern hátt komst yfir lítið handtækt tæki sem var gætt þeim eiginleikum að hægt var að spjalla við það og fá ráðleggingar til að komast áfram í lífinu. Þetta tæki var sem sagt gætt mannsrödd og áttu ráðleggingar þess ekki að bregðast. Tækið sagði unga manninum nákvæmlega hvað hann ætti að gera til að græða peninga og það sem mestu máli skipti, hvernig hann átti að krækja í draumaprinsessuna. Nú man ég ekki alveg framvinduna en auðvitað endaði myndin á því að allt var komið í hönk hjá aumingjans manninum því ráðleggingar tækisins reyndust þegar til kom ekki eins skynsamlegar og það hélt sjálft fram. Að lokum frelsaði hann sjálfan sig og henti tækinu í næstu ruslatunnu þrátt fyrir áköf mótmæli þess.

Kannski kannast einhver við þessa bíómynd sem var dæmigerð áminning um að varasamt getur verið að treysta tækninni um of. Myndin gæti verið eitthvað um 50 ára gömul en á sjöunda áratugnum var eins og oft áður mikil trú á því að tæknin ætti eftir að leysa flest okkar vandamál og létta okkur lífið. Við áttum auðvitað að geta skroppið til tunglsins í sumarfríum árið 2000. Mennirnir kæmu úr vinnu svífandi um á fljúgandi bílum á meðan næringarríkar matarkökur væru galdraðar fram í sjálfvirkum eldhúsum húsmóðurinnar.
Ekki er þetta alveg svona í dag og sjálfsagt myndi tímaflökkurum frá sjötta áratugnum reka í rogastans yfir því hvað lítið hefur í raun breyst. Við erum enn að aka um á fjórhjóla bensínbílum eins og gert hefur verið í 100 ár. Flugvélar hafa lítið breyst, algengasta farþegaþotan er ennþá Boeing 747 sem flaug fyrst árið 1969, löngu er búið að leggja síðustu hljóðfráu Concorde þotunni og Bandaríkjamenn þurfa að leita á náðir Rússa til að koma sér upp fyrir lofthjúpinn í Soyuz-geimflaugum sem hafa verið í notkun síðan 1966. Ýmislegt hefur þó breyst en sá lúxus sem til staðar er í dag er að mestu bundin við betur stæða jarðarbúa á meðan meirihluti fólks í heiminum býr við takmarkanir vegna fátæktar.

Tæknibyltingin sem þó er orðin er samt sem áður mjög merkileg og þarf ekki að gera lítið úr henni þó hún stuðli ekki alltaf að bættu mannlífi. Tæknibyltingin er ekki mjög sýnileg í raun og hún hefur ekki breytt ásýnd borga og umhverfisins svo mjög. Byltingin felst í aðgengi upplýsinga, samskiptum manna á milli og afþreyingu sem óðum gerir svo margt úrelt sem þótti frábært fyrir nokkrum árum. Allt er nú aðgengilegt í litlu tæki sem menn ganga með á sér hvert sem þeir fara, enda er í einu og sama tækinu samankomnir allir helstu fjölmiðlar heimsins, vídeóleigur, dagblöð, sjónvarp og útvarpsstöðvar, auk myndavélar, kvikmyndatökuvélar, einnig alfræðisafn með upplýsingum um hvaðeina, orðabækur, bókasafn, ritvél og reiknivél, staðsetningatæki, landakort af öllum heiminum og öllum borgum, áttaviti, vasaljós og að ógleymdum sjálfum símanum sem óðum er að verða undir í samkeppni við samskiptaforrit sem aldrei eru á tali.

En tækin, eða hinir svokölluðu snjallsímar, sem fólkið gengur með, eru samt sem áður engar vitvélar og það þýðir ekkert að spyrja þau hvaða stefnu eigi að taka í lífinu. Þrátt fyrir tæknina munu menn halda áfram að verða sínar eigin snjallverur og sinnar eigin gæfu smiðir. Menn munu líka halda áfram að misskilja mann og annan og jafnvel hengja bakara fyrir smiði. Ætli það verði ekki þannig um ókomna tíð?

Snjallverur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband