Geimveruat

Það skal viðurkennt að maður tók dálítinn kipp um daginn þegar fréttir bárust að því utan úr heimi að stjörnufræðingar hefðu komið auga á dularfull fyrirbæri, umhverfis einhverja stjörnu, sem erfitt væri að útskýra með öðru en að hátæknisamfélag væri þar að verki. Það var aðallega umfjöllun í Independent sem sem vakti athygli en þeir voru fljótir að vísa til geimvera sem líklegri skýringu á tilurð fyrirbærisins sem fannst með aðstoð Kepler sjónaukans.

Eins og oft áður reyndust þetta þó vera einhver tálsýn eða hrein æsifréttamennska og auðvitað kom "Stjörnu-Sævar" okkur aftur niður á jörðina með nánari útskýringar og benti á að geimverur væru neðstar á blaði þegar skýringa væri leitað. Það væru ýmsar náttúrulegar skýringar í boði á þessu fyrirbæri eins og til dæmis halastjörnubrot sem höfðu raðað sér upp með sérstökum hætti umhverfis umrædda stjörnu. Einnig skal hafa í huga að vísbendingar um að eitthvað væri á ferð þarna fengust með því að mæla lítilsháttar en reglulegar breytingar á birtistigi stjörnunnar sem gerist þegar eitthvað gengur fyrir hana, eins og til dæmis reikistjörnur. Það sást því ekki beinlínis neitt umhverfis stjörnuna, aðeins vísbendingar um eitthvað óvenjulegt.

Fljúgandi diskar

Ef rétt hefði verið og staðfest að þarna væri eitthvað hátæknilegt á ferð, hefðu það verið stórtíðindi sem breytt hefðu miklu, því fram að þessu höfum við jarðarbúar ekki fundið neitt sem hönd á festir um líf á öðrum hnöttum, hvað þá þróuð samfélög geimvera. Dularfulla stjarnan (KIC 8462852) sem augu manna beindust að er í 1.481 ljósára fjarlægð, sem þýðir að það sem við sjáum þar eru í raun 1.481-árs gamlar fréttir. Vegna fjarlægða í alheiminum erum við alltaf að horfa á gamla atburði þegar við horfum til stjarnanna og mis gamla eftir því hversu fjarlægar stjörnurnar eru. Sama gildir ef hugsanlegar geimverur í þessu tiltekna fjarlæga sólkerfi væru að fylgjast með jörðinni núna. Það sem þeim birtist er jörðin eins og hún var fyrir 1.481 ári þegar miðaldir voru gengnar hér í garð með þjóðflutningnum miklu og allskonar umróti í Evrópu eftir fall Rómaveldis. Væntanlega væri þó fáar vísbendingar um að hér væri eitthvað háþróað líf á ferðinni enda langt í útsendingar útvarpsstöðva og annarra ljósvakamiðla.

En eru annars einhverjar geimverur og hátæknisamfélög þarna úti? Já verðum við ekki að segja það? Úr því það er hægt á jörðinni þá hlýtur það að vera hægt annarsstaðar. Það er þó ekki þar með sagt að háþróað líf og hátæknisamfélög verði til svo auðveldlega, öðru nær. Skýringin á tilvist geimvera hlýtur miklu frekar að vera sú að heimurinn er svo ógnastór að eiginlega allt hlýtur að vera til einhverstaðar og í miklu úrvali. Fjarlægðir eru hinsvegar að sama skapi ægilegar sem ætti að skýra hvers vegna við höfum ekki orðið vör við neitt þarna úti og enginn sennilega orðið var við okkur. Kannski er það jafnvel svo að tegundin maður sé langtæknivæddasta lífvera gjörvallrar vetrarbrautarinnar og eina lífveran sem hugsar yfirleitt eitthvað út fyrir sólkerfið. En jafnvel þó að eitthvað líf og vit sé í kringum okkur þá trú ég því að samskipti og heimsóknir geimvera til jarðar séu nánast alveg út úr myndinni í nútíð, fortíð og framtíð þótt sumir vilji trúa öðru í þeim efnum. Það má þó alltaf leika sér að möguleikunum eins og þeim að í jarðsögunni hafi kannski einu sinni komið geimverur sem hafa verið svo óheppnar að vera étnar af risaeðlum.

- - -

Myndskreytingin sem fylgir er úr kvikmyndinni Mars Attach frá árinu 1996

 


mbl.is Geimverur neðstar á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

 Það má alltaf leika sér að hugmyndum, gerir bara gott. Málið er, við 1 spurningu, verða til 1000 aðrar spurningar. Eitt er samt kristaltært, við vitum ekkert um fortíðina, og mannfólkinu greinir á í trúarlegu tilviki, sem er eftir allt, bara TRÚ. 

Jónas Ómar Snorrason, 25.10.2015 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband