15.11.2015 | 20:19
Stóra markmiðið var Stade du France
Í sambandi við hryðjuverkin í París þá hafa menn velt fyrir sér hvers vegna þessi staður og þessi stund var valin, föstudagskvöld í París. Hryðjuverkamönnunum tókst vissulega að framkvæma hræðilega verknaði og þar ber hæst fjöldamorðin á tónleikastaðnum Bataclan. Ekki ætla ég að gera lítið úr því né öðru sem gerðist í París þetta kvöld. Miðpunktur og útgangspunktur þessara árása hlýtur samt hafa átt að vera landsleikur Frakka og Þjóðverja á þjóðarleikvanginum sjálfum þar sem forsetinn var mættur, ásamt tugum þúsunda áhorfenda að ógleymdum þeim milljónum sem fylgdust með leiknum í beinni útsendingu. Þetta var stóra skotmarkið og ljóst að ef sprengjumenn hefðu komist inn á leikvanginn meðal áhorfenda þá hefði athygli heimsins aldeilis beinst þangað og það í beinni. Það má ímynda sér þá sem raunverulega stóðu bak við árásirnar þar sem þeir sitja við skjáinn heima í stofu bíðandi eftir sprengingunum. Jú það heyrðust vissulega sprengingar en svo ekkert meir, leikurinn hélt áfram og lauk með sigri Frakka við fögnuð grunlausra áhorfenda þótt ýmsir hafi verið farnir að átta sig á að ekki væru allt með felldu. Utan við sjálfan leikvanginn höfðu þrír sprengjumenn sprengt sig, með þeim afleiðingum að fjórir létust, þar af þrír sprengjumenn. Að minnsta kosti einn þeirra átti miða á völlinn en var stoppaður við vopnaeftirlit við innganginn.
Hert öryggisgæsla við leikvanginn hefur þarna greinilega komið í veg fyrir enn meira manntjón og enn stærri atburð. Það má hins vegar spyrja sig hvernig staðið hefði verið að málum ef forseti Frakklands hefði frekar kosið að verja föstudagskvöldinu á rokktónleikum hljómsveitarinn Eagles of Death Metal í Bataclan-tónleikahöllinni. Væntanlega hefði öryggisgæsla á þeim stað verið öllu meiri þetta kvöld og kannski þeim mun minni á landsleiknum. En hvernig sem það er þá heppnuðust hryðjuverkin ekki nema að hluta, því stóra markmiðið gekk ekki eftir. Nógu slæmt var þetta þó samt og veruleikinn er annar á eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:47 | Facebook
Athugasemdir
Já þú segir nokkuð,þetta er mjög sennileg skýring,alla vega reyndu þeir inngöngu á leikinn.
Helga Kristjánsdóttir, 16.11.2015 kl. 01:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.