Vetrarhitamósaík

Veturinn sem nú er að baki var ekkert sérlega hlýr í borginni og reyndar bara frekar kaldur miðað við flesta vetur þessarar aldar. Þó var það þannig að almennilegar frosthörkur gerðu lítið vart við sig, að minnsta kosti hér í Reykjavík og vegna skorts á hlýindaköflum að auki var þetta frekar flatneskjulegur vetur í hitafari miðað við það sem oft gerist. Þetta má sjá mósaíkmyndinni sem byggð er á eigin skráningum og sýnir hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík allt aftur til ársins 1989. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn. Að venju miða ég við dæmigerðan hita yfir daginn en tölurnar lengst til hægri er hinsvegar reiknaðar út frá opinberum mánaðarhitatölum Veðurstofunnar. Ég veit að almennt telst nóvember ekki til vetrarmánaða en finnst þó sjálfum betra að hafa hann með.
Vetrarhitarmósaík 1989-2016
Í heildina þá sést ágætlega hvernig veturnir fóru að verða hlýrri upp úr aldamótum með áberandi fleiri hlýindaköflum um hávetur og að sama skapi færri kuldaköstum. Veturinn 2002-2003 er afgerandi hlýjastur (3,2 stig) en kaldast var veturinn 1994-1995 (-1,0 stig). Síðustu tveir vetur eru frekar svipaðir upp á hitafar að gera en greinilegt er að hlýindaköflum um hávetur hefur fækkað miðað við það sem var fyrir nokkrum árum. Við fengum þó ágætan vikuskammt af hlýindum núna í mars sem gerði alveg út af við snjó og klaka í borginni.
Best finnst mér að segja sem minnst um hvort hlýindi síðustu ára séu að baki. Þau hlýindi voru óvenjuleg hvað sem öðru líður og því ekkert óeðlilegt að það kólni eitthvað hér hjá okkur. Það er þó dálítið sérstakt að við höfum alveg farið á mis við þau miklu hlýindi sem einmitt hafa einkennt norðurhluta jarðar þennan vetur. En það getur alltaf breyst.

- - - -
Það má annars velta sér upp úr tíðarfarinu og bera saman við fyrri ár á ýmsan hátt. Í næstu færslu verður það einnig gert. Þar er um að ræða einn fastasta árlega fastalið þessarar síðu. Föstustu lesendur vita kannski hvað átt er við.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband