Orustuflugvélin í Grænlandsjökli

Fyrir nokkru sá ég þessa skopteikningu í netheimum þar sem komið er inn á áhugaverða sögu bandarískrar orustuflugvélar á stríðsárunum sem þurfti að nauðlenda á Grænlandsjökli þar sem hún átti eftir að hverfa í jökulinn uns hún fannst aftur áratugum síðar. Skopið í myndinni felst í að benda á það sem mörgum kann að þykja ankannalegt að á sama tíma og Grænlandsjökull er sagður vera að bráðna vegna hnattrænnar hlýnunar, þá skuli flugvél sem lendir á jöklinum og skilin þar eftir, geta grafist niður ein 268 fet í jöklinum. "Damn this Global Warming!!" eins og pirraður gröfumaðurinn, segir í myndatexta.
Skopmynd 268fet
Misskilningurinn og það sem í raun er skoplegt við þessa mynd er þó að í henni endurspeglast viss fáfræði í grundvallaratriðum jöklafræða. Það er þó kannski ekki endilega við teiknarann að sakast. Skopmyndir eru auðvitað meira upp á grínið frekar en raunveruleikann. Það er þó ekki víst að allir þeir sem kunna að meta húmorinn, átti sig á vitleysunni og telja myndina ágætis innlegg sem gagnrýni á meinta hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Málið með jökla er að allt sem skilið er eftir á hábungu þeirra, grefst niður með tímanum, jafnvel þótt jökullinn fari minnkandi. Á efri hluta jökla er safnsvæði þeirra og þar hleðst hvert snjólagið ofan á annað með hverjum vetri. Jökullinn hækkar þó ekkert endilega og getur jafnvel lækkað en það fer eftir hversu mikið bráðnar á móti á leysingarsvæðunum sem liggja nær jökuljaðrinum og er þá talað um jákvæðan eða neikvæðan jöklabúskap. Flugvélin sem þarna lenti á sínum tíma ofan á hábungu Grænlandsjökuls gat því ekki annað en grafist niður og borist áfram með jöklinum sem skríður undan eigin fargi og hefði birst að löngum tíma liðnum á leysingarsvæðinu einhversstaðar í skriðjökli, illa kramin auðvitað. En það átti reyndar ekki við um þessa flugvél. Henni var nefnilega bjargað og flogið á ný!

Saga flugvélarinnar, sem hlotið hefur nafnið Glacier Girl og er að gerðinni Lockheed P-38 Lightning, er annars sú að árið 1942 var ákveðið að ferja mikinn fjölda Bandarískra stríðsflugvéla til Bretlands og var það liður í innrásarplönum bandamanna í Frakkland á þeim tíma (sem átti eftir að frestast um tvö ár). Alls voru 920 flugvélar sendar yfir hafið í þessari aðgerð og lá leiðin yfir Grænland og með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli að sjálfsögðu. Ekki voru allar af hinum smærri vélum gerðar til slíks ferðalags en það þótt nokkuð gott að alls skiluðu sér 882 flugvélar á leiðarenda. Mestu afföllin voru reyndar um miðjan júlí '42 þegar alls átta flugvélar, sem flugu saman í hóp, þurftu að nauðlenda á Grænlandsjökli vegna eldsneytisskorts eftir að hafa snúið við vegna veðurs áður en þær náðu til Reykjavíkur. Í hópnum voru sex P-38 vélar og þar á meðal vélin sem fjallað er um hér. Auk þeirra voru tvær stærri B-17 vélar sem margir kannast við undir viðurnefninu Fljúgandi virki (Flying Fortress) en þær voru betur búnar siglingatækjum og fóru því fyrir fluginu. Öllum flugmönnum var að lokum bjargað eftir mikinn barning á jöklinum.

Eftir því sem leið frá stríðslokum fór áhugi manna á gömlum flugvélum frá stríðsárunum að aukast enda eftirspurnin meiri en framboðið. Þá var smám saman farið að huga að vélunum átta sem nauðlent höfðu og skildar voru eftir á Grænlandsjökli sumarið 1942. Fyrstu leitartilraunir voru gerðar árið 1977 en það var ekki fyrr en árið 1988 sem vísbendingar um flugvélarnar fundust með aðstoð íssjár og reyndust vélarnar liggja dýpra í jöklinum en menn höfðu áætlað og auk þess um tveimur kílómetrum frá upphaflegum lendingarstað enda jökullinn á stöðugri hreyfingu. Árið 1990 var gerður út leiðangur og boruð hola niður að því sem fundist hafði og reyndist það vera önnur B-17 vélanna en hún reyndist þegar til kom of illa farin til að reyna að ná henni upp.

GlacierG undir ísnumTveimur sumrum seinna, árið 1992 eða 50 árum eftir nauðlendinguna, var gerð önnur tilraun og þá komu menn niður á nokkuð heillega P-38 vélina á 268 feta dýpi (82 metra) og skemmst frá því að segja að vélinni var náð upp með því að flytja hana upp í bútum og flutt þannig til Bandaríkjanna þar sem vélin var gerð upp og komið í flughæft ástand með miklum glans. Til að auka veg flugvélarinnar enn meir var árið 2007 gerð tilraun til að fljúga henni þá leið til Bretlands sem upphaflega var áætluð árið 1942. Það gekk þó ekki betur en svo að vélin þurfti að nauðlenda á flugvelli á Labradorskaga vegna vélarbilunar og ferðinni að lokum aflýst. Samkvæmt heimildum er henni haldið í flughæfu ástandi og treður gjarnan upp á flugsýningum í Bandaríkjunum við góðan fögnuð viðstaddra.

Þegar til kom varðveitti jökullinn flugvélina sem aldrei náði leiðarenda. Hinar flugvélarnar sjö sem einnig lentu á jöklinum halda væntanlega áfram að grafast dýpra niður í Grænlandsjökul og leifar þeirra munu skila sér úr jöklinum í fyllingu tímans, alveg óháð því hvernig Grænlandsjökull mun spjara sig í hlýnandi heimi, hversu skoplegt sem það nú er.

P-38 á flugi

Uppgerða orustuflugvélin Lockheed P-38 Lightning "Glacier Girl" á flugi.

- - -

Heimildir og ljósmyndir:
http://www.damninteresting.com/exhuming-the-glacier-girl
https://en.wikipedia.org/wiki/Glacier_Girl

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband