Stóra snjódagamyndin, 1986-2016

Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og grundirnar fara senn að gróa - hér í Reykjavík að minnsta kosti. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið yfir jörðu í borginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum á ýmsum veðurþáttum sem hófust á miðju ári 1986 og er þetta því 30. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki en sé ég í vafa þá miða ég við 50% snjóhulu í mínum garði undir miðnætti hvers dags. Nánari útlistanir eru undir myndinni.

Snjódagar 1986-2016

Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Undanfarnir tveir vetur voru af hvítara taginu með upp undir 100 hvíta daga og eru því meira í ætt við veturna fyrir aldamótin. Liðinn vetur var dálítið sérstakur að því leyti að fyrsti hvíti dagurinn kom ekki fyrr en 26. nóvember og hefur ekki komið síðar á skráningartímanum. En þegar snjórinn kom þá munaði um það því snjóþyngslin voru strax með þeim mestu sem mælst höfðu í Reykjavík í nóvember. Enn bætti í snjóinn og snemma í desember var snjódýptin 44 cm í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri í þeim mánuði í borginni. Eftir alhvítan desembermánuð náði snjórinn að hverfa í tvígang í janúar en síðan tók við alhvítur febrúar. Það var þó ekki hægt að tala um snjóþyngsli í febrúar en þrálátur var hann. Eftir að snjórinn hvarf, snemma í mars, hefur aðeins einu sinni hvítnað og apríl hefur verið laus allra mála. Ef við fáum ekki síðbúna snjókomu í maí þá getum við reyndar sagt að snjótímabilið hafi ekki verið styttra á því tímabili sem myndin nær yfir, allavega miðað við þessar skráningar. Það var þó ansi hvítt meðan á því stóð.

Garður 1. des 2015

Snjóþyngsli í garðinum heima, að kvöldi 1. desember 2015.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband