Mánaðarhitasúluritið að loknum október

Að loknum þessum afar hlýja októberbermánuði er varla hægt annað en að taka stöðuna á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík. Ef þetta væru kosningaúrslit þá væri nýliðinn október ótvíræður sigurvegari hvað aukningu varðar og þá ekki bara í Reykjavíkurkjördæmi heldur einnig á landinu í heild. Annars sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár og eins og sjá má er októberhitinn í ár við það sem gengur og gerist í september. Meðalhitinn í Reykjavík að þessu sinni var 7,8 stig sem er þó ekki alveg met, því örlítið hlýrra var 1915, 7,9 stig. Hinsvegar var þetta metmánuður þegar kemur að úrkomu enda var hún mikil. Spurning er með vindinn, en samkvæmt óopinberum og ónákvæmum skráningum í eigin veðurdagbók, var þetta lang-vindasamasti október frá því eigin skráningar hófust árið 1986. Nánar um það í síðustu bloggfærslu.
Reykjavíkurhiti 2016 - 10 mánuðir
Nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu eru línur farnar að skýrast varðandi ársmeðalhitann. Fjólubláu tónuðu súlurnar tvær lengst til hægri á myndinni eiga að sýna það. Sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu 61-90 fæst ársmeðalhitinn 5,5 stig, en sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum má gera ráð fyrir 5,7 stiga meðalhita. Hvort tveggja telst vera mjög hlýtt. Árshitamet er þó varla líklegt. Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 (6,1°C) en mér reiknast svo til að meðalhitinn það sem eftir er þurfi að vera hátt í 4°C svo það náist. Hinsvegar er alveg öruggt að þetta ár verður mun hlýrra en árið í fyrra (4,5°C, græn súla). Það var reyndar kaldasta árið af þeim fáu sem liðin eru af öldinni eða það minnst hlýja, eftir því hvernig menn vilja orða það því hér hefur ekki komið kalt ár síðan 1995 (3,8°C).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband