Stóra snjódagamyndin 1986-2017

Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og senn fara grundirnar að gróa. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið á jörðu í höfuðborginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum sem hófust árið 1986 og er þetta því 31. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvenær jörð er hvít en viðmiðunin er a.m.k. helmingssnjóhula í mínum garði undir miðnætti. Nánari útlistanir eru undir myndinni.

Snjódagar 1986-2017

Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Á liðnum vetri voru hvítir dagar 47 talsins sem er með minna móti miðað við meðaltalið sem eru 73 dagar á vetri. Þeir vetur sem náð hafa 100 hvítum dögum komu allir fyrir aldamót en mjög litlu munaði þó veturna tvo 2014-15 og 2015-16.

Það var frekar löng bið eftir fyrsta hvíta deginum á síðasta vetri enda var haustið hlýtt og veturinn lengst af einnig. Snjórinn var því yfirleitt ekki mikill og staldraði stutt við þegar hann lét sjá sig. Undantekningin á snjóléttum vetri var ofursnjókoman aðfararnótt 26. febrúar sem skilaði 51 cm snjódýpt sem er það mesta sem mælst hefur í Reykjavík í febrúar og næst mesta snjódýpt sem yfirleitt hefur mælst í borginni. Þessi mikli snjór lét smám saman undan síga og í lok dags þann 11. mars skrái ég auða jörð á ný. Eitthvað lítilræði snjóaði eftir þetta og örlaði á hvítri jörð síðustu dagana í apríl þótt ekki dygði það til að rata í skráningarbókina, sem eins og fyrr segir miðar við garðinn heima vestarlega í borginni.

Snjór 26. febrúar 2017

Allt á kafi í garðinum heima að morgni hins 26. febrúar 2017.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband