7.1.2018 | 00:03
Hitamósaík 1981-2017 fyrir Reykjavík
Samkvæmt venju þá er fyrsta bloggfærsla ársins tengd veðrinu. Að þessu sinni er það mósaíkmynd sem sýnir hvernig hitinn hefur þróast í Reykjavík frá mánuði til mánaðar aftur til ársins 1981 og í hvað sæti hver mánuður er í hitaröðinni. Fyrirmyndin að uppsetningu er mynd sem ég sá á vefnum og birti fyrir stuttu, en hún sýndi hitaþróun á norðurslóðum síðustu áratugi. Sjálfur hef ég reyndar gert svipaðar mósaíkmyndir, eins og ég kalla þær, og því fannst mér tilvalið að eyða nokkrum góðum frístundum í eina slíka fyrir Reykjavík.
Það fer ekki á milli mála að það hefur hlýnað talsvert í þessu tímabili. Að einhverju leyti er þar um að ræða almenna hnattræna hlýnun en ekki skiptir minna máli að hér er um að ræða þróun frá köldu tímabili yfir í hlýtt tímabil. Fyrir sjálfan mig er þetta líka tímabil sem ég man ágætlega veðurfarslega, en þó misvel eins og gefur að skilja. Láta má nærri að sú hlýnun sem þarna hefur átt sér stað sé um 1,4 stig sem er ekki lítið, en meðalhitinn á 1981-1990 var um 4,1 stig en hefur verið um 5,5 stig á þessari öld. Þróunin til hlýnunar er þó ekki samfelld enda hafa alltaf komið mánuðir eða tímabil sem hafa verið á skjön við sinn samtíma. Vonandi skýrir uppsetningin sig sjálf en til að hjálpa til þá er árið 2017 lóðrétt lengst til hægri og svo raðast mánuðirnir niður með janúar í efstu línu. Tölurnar í töflunni vísa í hvaða sæti hver mánuður er hitafarslega frá 1981. Undir myndinni kemur smá greinargerð.
Smá greinargerð: Í samræmi við hlýnun tímabilsins þá koma hærri tölur og bláir litir oftar fyrir á vinstri helmingi myndarinnar og munar þar mest um árin 1981 og 1983 þegar ársmeðalhitinn var aðeins 3,4 stig. Kaldasti mánuðurinn á myndinni er þó janúar 1984 (-4,0°) þegar mikið vetrarríki var í gangi. Það má líka minnast á október 1981 (0,5°C) sem er langkaldasti október á tímabilinu og sá kaldasti sem mælst hefur í borginni. Ég man reyndar lítið eftir honum sjálfur, nýbyrjaður í menntaskóla og með hugann við annað. Öllu betur man ég eftir hinu alræmda sumri 1983 sem þarna kemur vel fram, og ekki laust við að það kalda sumar hafi kveikt í mér hinn þráláta veðuráhuga.
En svo gerðist hið óvænta í ársbyrjun 1987 þegar allt í einu kom mjög hlýr vetrarmánuður en janúar það ár var hlýjasti janúar sem ég hafði upplifað (3,1°C) og hefur sá mánuður reyndar ekki orðið hlýrri hér síðan. Ekki nóg með það því desember sama ár var einnig einstaklega hlýr (4,2°) og þurfti að fara aftur til kreppuáranna til að finna hlýrri desember. Eitthvað var kannski farið að breytast, en þó var enn eitthvað í það og við tók fimbulkaldur janúar 1988 (-3,0°C) sem voru mikil viðbrigði milli mánaða. Árið 1989 var síðan lengst af mjög kalt en síðustu þrír mánuðirnir björguðu því frá botninum.
Aftur lyftist brúnin á borgarbúum í júlí-hitabylgjunni 1991 en hlýrri júlí (13°C) hafði þá ekki mælst í borginni frá upphafi. Næstu tvö sumur voru hinsvegar köld hér í Reykjavík þannig að þetta var ekki búið. Veturinn 1994-95 er frægur fyrir mikil snjóþyngsli á norðanverðu landinu en árið 1995 er síðasta kalda árið hér á landi og var meðalhitinn í Reykjavík þá 3,8 stig. Svo fór þetta að koma, nema að lokaandvarpið var eftir, því nóvember 1996 var sá kaldast í Reykjavík (-1,9°C) síðan einhverntíma 19 öld.
Strax upp úr miðju ári 2001 hófst núverandi hlýindaskeið sem síðan hefur verið nokkuð samfellt. Raunar hlýnaði svo skart að á 12 mánaða tímabilinu frá nóv.2002-okt.2003 var meðalhitinn 6,6 stig sem er alveg einstakt og hefur ekki náð þvílíkum hæðum síðan. Á nokkrum árum komu svo þarna hlýindakaflar sem eyðilögðu hverja skíðavertíðina af annarri og sjást hlýindin á myndinni sem knippi af dökkrauðum síðvetrarmánuðum árin 2003-2006. Einnig má minnast á desember 2002 sem var hlýrri en nokkurn tíma hefur mælst (4,5°C). Sumarmánuðirnir fóru líka mjög svo hlýnandi. Hlýjasti ágúst sem mælst hefur var árið 2003 (12,8°C) og árið eftir kom ágústhitabylgjan eftirminnilega, sem sló mörg met víða um land. Eftir nokkurra ára tíðindaleysi með áframhaldandi hlýindum kom sumarið 2010 en þá var röðin komin að júní að setja nýtt meðalhitamet (11,4°C) og í kjölfarið fylgdi júlí, sem jafnaði merkismánuðinn júlí 1991 að meðalhita (13,0°). Fleiri hlýir mánuðir áttu eftir koma allt fram á síðastliðið ár, en þó má segja að sveiflur í hitafari hafi aukist. Maímánuður árið 2015 var ansi kaldur en 2015 má annars flokkast sem meðalhlýtt ár (4,5°C) en hefði þótt bara nokkuð gott fyrir 30-40 árum. Árin þar á undan og á eftir 2014 og 2016, voru hinsvegar með þeim allra hlýjustu (6,0°). Meðalhiti nýliðins árs var mjög í samræmi við önnur ár á þessari öld (5,5°C). Síðustu tveir mánuðirnir voru þó í kaldara lagi og missti árið þar með af ákveðnum möguleikum.
Hvert framhaldið verður veit auðvitað enginn, en í ljósi þeirra hitasveiflna sem áður hafa átt sér stað hlýtur alltaf að vera möguleiki á bakslagi eftir svona hlýtt tímabil. Ef það bakslag er nýbyrjað þá munum við ekki vita af því fyrir en eftir einhver ár þegar við horfum á nútímann úr fjarlægð. En svo gætu hlýindin líka bara rétt verið að byrja.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt s.d. kl. 00:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.