9.2.2018 | 23:46
Fleksnes og Halló Hafnarfjörður
Þeir sem komnir eru til vits og ára og muna tímana tvenna hljóta einnig að muna eftir Norsku gamanþáttunum um Fleksnes sem sýndir voru í sjónvarpinu á áttunda áratugnum. Fleksnes þessi gerði sér ýmislegt til dundurs en tókst misvel upp í sínu lífi eins og gengur og gerist, ekki síst þegar samborgararnir ganga ekki alveg í sama takti. Eftirminnilegasti þátturinn um Fleksnes er þegar við fáum innsýn í það áhugamál hans spjalla í talstöð sem svokallaður radíóamatör. Slíkt var vinsælt hjá sumum á sínum tíma, einkum á meðal græjufíkinna karlmanna, en þetta var auðvitað löngu fyrir daga nútíma samfélagsmiðla. Þetta var kærkomið áhugamál fyrir Fleksnes sem gaf lífinu gildi enda átti hann með aðstoð tækninnar, vini út um allan heim - að vísu engan í Noregi. Og þarna kemur Hafnarfjörður við sögu því auðvitað á Fleksnes radíóvin í Hafnarfirði.
Þegar þátturinn var sýndur á sínum tíma hér á landi vakti hann auðvitað athygli því það var ekki á hverjum segi sem Ísland kom við sögu í útlenskum þáttum. Hvað þá Hafnarfjörður? Síðan þá hefur orðatiltækið "Halló Hafnarfjörður" gjarnan verið notað þegar sá kaupstaður ber á góma. Mig grunar að fæstir viti eða muni hvaðan þessi kveðja er komin, nema auðvitað einhverjir af þeim sem virkilega eru komnir til vits og ára. Ætli ég hafi ekki verið að horfa á Útsvarið í Sjónvarpinu þegar mér datt í hug hvort ekki væri hægt að finna þennan umrædda þátt með Fleksnes. Það reyndist vera lítið mál. Þátturinn er frá árinu 1972 og er 1. og 2. hluti af þremur hér á you-túpunni. Hafnarfjarðaratriðið hefst á 8:30 í fyrri hlutanum en heldur áfram í upphafi 2. hluta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.