31.3.2018 | 21:18
Vetrarhiti í súlnaformi
Þótt vetrarkuldar séu kannski ekki alveg að baki þá ætla ég bjóða hér upp á vetrarhitasúlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík nýliðinn vetur, frá nóvember til mars. Tölurnar sem liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum sem staðið hafa lengi. Hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins sem liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Eins og venjulega var hitafar vetrarins upp og ofan en almennilegir hlýindakaflar létu á sér standa þar til undir það síðasta. Nánar um það undir myndinni.
Vetur byrjaði nokkuð skart eftir góð hausthlýindi á undan. Nóvember er yfirleitt ekki skilgreindur sem vetrarmánuður en að þessu sinni náðu vetrarkuldar fljótlega yfirhöndinni í mánuðinum og færðust í aukana eftir því sem á leið. Meðalhitinn endaði rétt yfir frostmarki og varð þetta kaldasti nóvember í Reykjavík síðan 1996, en þá var reyndar mun kaldara. Í desember og janúar var hitinn áfram að dóla sér sitt hvoru megin við frostmarkið. Lægðir færðu okkur hlýindi úr suðri af töluverðu afli en það jafnaðist iðulega út með kuldum úr norðri. Ekki er hægt að tala um öfgar í hitafari og eiginlega mesta furða að köldustu dagarnir hafi ekki verið kaldari en þetta. Almennileg hlýindi létu líka bíða eftir sér en í febrúar skrái ég fyrst 7 stiga hita yfir daginn snemma í mánuðinum. Þess var auðvitað hefnt með meira en vikuskammti af kulda. Svo fór þetta að koma. Eftir miðjan febrúar náðu hlýir loftmassar loks yfirhöndinni og mars hefur stórlega bjargað málunum fyrir hitafar vetrarins. Mér reiknast svo til, út frá opinberum tölum, að meðalhiti þessara fimm vetrarmánaða sé +0,5 stig sem er sambærilegt vetrinum 2001-2002 og að þessir tveir vetur séu þar með þeir köldustu á öldinni. Þetta var sem sagt heldur kaldari vetur en við höfum átt að venjast á þessari öld. Á kalda tímabilinu 1965-1995 hefði hann þó sennilega fengið ágætis eftirmæli.
En til samanburðar og upprifjunar þá á ég sambærilega mynd fyrir veturinn á undan þessum, þ.e. veturinn 2016-2017. Sá vetur var með þeim allra hlýjustu og mældist meðalhitinn hér í Reykjavík 2,6 stig frá nóv-mars. Þar erum við greinilega að tala um allt annarskonar vetur, en þó vetur engu að síður.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 1.4.2018 kl. 00:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.