1.8.2018 | 23:14
Skýstrókar við Suðuströndina
Í gönguferð minni um Grindarskörð og Hvirfil ofan Lönguhlíðar varð ég vitni af skýstróknum við Þorlákshöfn sem fjallað er um í viðtengdri frétt og náði hinum sæmilegustu myndum af fyrirbærinu. Ekki nóg með það því skömmu eftir að strókurinn leystist upp fór annar að myndast nálægt Selvogi að mér sýndist. Yfir þetta hafði ég ágætis útsýni en gjarnan hefði ég viljað hafa almennilegu myndavélina meðferðis í stað símamyndavélarinnar. Myndirnar segja þó sýna sögu og eru teknar þann 1. ágúst 2018 milli kl. 15 og 16.
Kl. 15:19. Þessi fyrsta mynd er tekin í átt að Þorlákshöfn og sjá má litla mjóa totu teygja sig niður úr bólstraskýinu.
Kl. 15:25. Totan hefur lengst og var hér orðin að löngum mjóum spotta sem virtist ná langleiðina til jarðar. Myndin er tekin á svipuðum stað og sú fyrri en sjónarhornið er þrengra. Skömmu síðar leystist hvirfillinn upp og sást ei meir.
Kl. 15:36. Hér er horft lengra í vestur í átt að Selvogi en þarna virðist nýr skýstrókur vera byrja að skrúfast ofan úr skýjunum.
Kl. 15:40. Sama sjónahorn og á myndinni á undan en þarna er nýi skýstrókurinn fullmyndaður. Hann er heldur breiðari um sig en sá fyrri, nær beint niður og svífur ekki um eins og hinn gerði. Væntanlega hefur hann ekki gert mikinn usla á jörðu niðri en kannski náð að róta einhverju upp mjög staðbundið. Þessi skýstrókur varði í nokkrir mínútur í þessu formi.
Kl. 16:02. Um 20 mínútum eftir að skýstrókurinn fór um Selvoginn, helltist úrkoman úr skýinu.
Horft frá sama stað í hina áttina þar sem sést til Höfuðborgarsvæðisins. Helgafell er þarna vinstra megin og Húsfellið er hægra megin. Miklir hvítir skýjabólstrar eru yfir Esju en veðrið er annars mjög meinlaust. Mikill óstöðugleiki er greinilega þennan dag, kalt í efri lögum og talsverður raki í lofti sem þéttist í uppstreyminu. Um morguninn hafði þokuslæðingur legið yfir sundunum.
Hvað veldur því að svona greinilegir skýstrókar hafi myndast þennan dag vil ég segja sem minnst. Þessir strókar eru auðvitað ekkert sambærilegir þeim sem myndast í USA, bara smá sýnishorn. Öflugt uppstreymi hér á landi er þó ekki óalgengt sérstaklega ekki yfir sólbökuðum söndunum við Suðurströndina. En oftast er uppstreymið nánast ósýnilegt. Þennan fyrsta dag ágústmánaðar hefur rakinn hinsvegar verið nægur til að þétta rakann í uppstreyminu og gera það sýnilegt þegar loftið skrúfast upp í loftið eins og öfugt niðurfall í vatnstanki.
- - -
Viðbót 2. ágúst: Ranaský (funel cloud) er eiginlega réttara heiti yfir þetta fyrirbæri sem myndaðist þarna, samkvæmt því sem Trausti Jónsson segir á Fésbókarsíðu Hungurdiska. Alvöru skýstrókar eru stærri og öflugri fyrirbæri. En hvað sem þetta kallast þá var þetta óvenjuleg sjón og ég held útskýring mín á fyrirbærinu sé ekki fjarri lagi.
Skýið teygði sig til jarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 2.8.2018 kl. 18:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.