Er Esja stærsta fjall landsins?

Á Íslandi eru ótal fjöll af ýmsum stærðum og gerðum. Sum þessarar fjalla standa stök en flest þeirra eru hluti af víðáttumeiri fjallabálkum eða fjallgörðum sem sumir ganga út frá meginhálendi landsins. Að meta stærðir einstaka fjalla getur því verið nokkuð snúið enda ekki alltaf auðvelt að meta hvar nákvæmlega tiltekið fjall byrjar og hvar næsta fjall tekur við. Þannig er álitamál hvenær fjall er fjall sem stendur undir nafni og hvenær um er að ræða fjöll en ekki fjall. Ekki dugar að vera með einhvern óskilgreindan hálendisbunka sem heitir jafnvel ekki neitt. Í tilfelli Esjunnar, bæjarfjalls Reykvíkinga, er þetta hinsvegar ekki mjög mikið vafamál og eins og kemur fram í fyrirsögn ætla ég að velta fyrir mér hvort eitthvað sé til í þeirri hugdettu minni að stærsta fjall landsins (að flatarmáli) utan jökla, sé kannski þessi Esja sem svo margir hafa daglega fyrir augum sínum og hefur frá upphafi prýtt toppmynd þessarar bloggsíðu.

Esja flatarmál

Á kortavef landmælinga er lítið mál að mæla flatarmál landsvæða og þar með fjalla sé maður ákveðinn í hvar fjallið byrjar. Mæling á Esjunni leiðir í ljós flatarmál upp á 127 ferkílómetra og geri ég þar ekki ráð fyrir að Skálafell sé hluti fjallsins enda aðgreint af Svínaskarði. Bíður eitthvað fjall betur?

Skarðsheiði

Litlu norðar er Skarðsheiði en það er einnig mikið fjall og heldur hærra en Esja. Sambærileg mæling gefur flatarmálið 110 ferkílómetra en þá undanskil ég Ölver, Hafnarfjall og fleiri sem aðgreind eru með skarðinu sem Skarðsheiðin er kennd við.

OK

Stórar dyngjur eins og Ok er ekki auðvelt að skilgreina hvar byrja, en mín málamiðlun gefur flatarmál upp á 105 ferkílómetra. Ok er auðvitað ekki lengur skilgreint sem jökull og fær því að vera með hér þótt möguleiki á endurkomu jökuls þarna sé ekki útilokaður.

Víðidals- og Vatnsnesfjall

Húnavatnssýslur státa af nokkrum umfangsmiklum fjöllum. Á Vatnsnesi mætti segja að þar standi eitt stórt og víðáttumikið fjall. En það sem tilheyrir hinu eina og sanna Vatnsnesfjalli er hinsvegar bara miðhluti fjalllendisins sem skiptist með skörðum og dölum í nokkur fjöll. Kannski eru heimamenn á öðru máli en ég fæ út stærðina 86 km2 með því að aðskilja Síðuna í austri, auk fjallstinda í vestri og suðri sem eru aðgreind með skörðum og bera sín eigin fjallanöfn. Víðidalsfjall er einnig heilmikill bálkur sem mælist 107 km2. Hér mætti einnig nefna nágrannan Vatnsdalsfall sem einnig er í þessum stærðarflokki eða um 90 km2.

Barnadalsfjall Tröllaskagi

Hvað þá með hinn mikla fjallabálk á Tröllaskaga? Þar eru vissulega að finna stór og mikill fjöll, en þau eru meira og minna samtengd og hluti af stærri fjallaröðum sem ganga út frá miðhluta skagans. Af heillegum fjöllum á skaganum má nefna stórar einingar eins og Barnadalsfjall á vestanverðum skaganum norðaustur af Hofsósi. Hvort sá bálkur sem ég hef slegið flatarmál á hér tilheyri allur því fjallaheiti veit ég ekki, en út kemur talan 110m2 eða nánast sama stærð og Skarðsheiði.

SmjörfjöllSvo er það fjallklumpurinn milli Vopnafjarðar og Héraðs. Svæðið skiptist í nokkra hluta og eru Smjörfjöll þar nafntoguðust, nema einhver vilji meina að Smjörfjöllin nái yfir allt fjallasvæðið. En hvað um það. Smjörfjöll samkvæmt minni mælingu gefa 169m2 sem er öllu meira en flatarmál Esju. En samt - Smjörfjöll eru eiginlega fjöll eða fjallgarður, en ekki fjall, enda felur örnefnið það í sér og ná hæstu tindar þarna yfir 1200 metra. Önnur fjallaröð, en nokkuð samhangandi eru Hlíðarfjöll sem snúa að Héraði. Ef flatarmál þeirra er mælt frá Smjörfjöllum að Hellisheiði eystri kemur flatarmálið 110m2 enn einu sinni fyrir. Utar á nesinu og einnig Vopnafjarðarmegin eru síðan ýmis minni fjöll svo sem Krossavíkurfjöll og Fagradalsfjöll.

Öræfajökull

Eins og ég nefndi í upphafi þá miðast þessi samanburður við fjöll utan jökla. Þó má alveg prófa að slá máli utan um hinn mikla Öræfajökul. Óumdeilt er að þar er að finna hæsta tind landsins þótt hæð hans hafi verið eitthvað á reiki. Flatarmálið er hér líka dálítið matsatriði eins og víðar en sjálfsagt er þó að miða við Hermannaskarð í norðri sem er í yfir 1300 metra hæð. Hér fáum við öllu meira flatarmál en úr öðrum mælingum eða tæpa 370 m2. Öræfajökull er sannkallað risafjall á okkar mælikvarða, en jafnast þó engan vegin á þau allra stærstu heiminum eins og elddyngjuna Mauna Loa á Hawaaii sem er 5.270 m2, og 4.169 metrar á hæð eða næstum helmingi hærri en Öræfajökull.

Þannig er þá niðurstaðan úr þessum hæfilega nákvæmum athugunum mínum. Ég hef sem sagt ekki fundið almennilegt fjall hér á landi sem stendur að mestu leyti stakt, er fjall en ekki fjöll, utan jökla, sem er stærra að flatarmáli en Esja. Sjálfsagt má þó alltaf hnika til skilgreiningum og nefna til sögunnar einhverjar stórar mishæðir eða eitthvað af fjallatagi sem er umfangsmeira. Niðurstöðum verður því að taka með fyrirvara þótt auðvitað haldi ég með mínu fjalli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Trausti Jónsson

Svona vangaveltur eru ætíð skemmtilegar - takk fyrir

Trausti Jónsson, 26.10.2019 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband