6.4.2019 | 21:06
Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa
Samkvæmt venju er nú komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu vikuna í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og eru myndirnar því orðnar 14 talsins og koma hér fyrir neðan í öfugri tímaröð ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum frá borginni séð.
Nú er nokkuð um liðið síðan Esjan varð alveg snjólaus en það gerðist síðast árið 2012. Aftur á móti þá hvarf snjór í fjallinu allan fyrsta áratug þessarar aldar (2001-2010) og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Sumarið 2011 var reyndar alveg á mörkunum og því næstum hægt að tala um 12 ára tímabil sem Esjan varð snjólaus. Þessi áratugur hefur reyndar ekki verið neitt kaldari að ráði en sá síðasti, en hinsvegar hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur haft sín áhrif. Einnig spilar inn í að ef skafl lifir eitt sumar þá leggst hann undir það sem bætist við veturinn eftir og þarf því meira til sumarið eftir.
Að þessu sinni eru Esjan vel hvít í efri hlíðum og smáskaflar ná langleiðina að fjallsrótum enda gerði duglega snjókomu í upphafi mánaðar en síðan þá hefur sólin talsvert náð að vinna á snjónum. Útsynningséljagangur einkenndi veðráttuna seinni hluta marsmánaðar en Esjan var reyndar orðin nokkuð snjólétt áður en til þess kom, þannig að mest áberandi snjórinn er tiltölulega nýr og þá væntanlega með minna mótstöðuafl en hinir eldri harðkjarnaskaflar sem undir lúra. Með hagstæðu tíðarfari ætti að vera mögulegt fyrir fjallið að hreinsa af sér allan snjó fyrir haustið. En það mun bara koma í ljós.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 7.4.2019 kl. 21:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.