7.4.2023 | 13:03
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Samkvæmt rótgróinni venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá því árið 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli öll árin nema árið 2019. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um.
Nú ber svo við að þrátt fyrir kaldan vetur þá eru Esjuskaflar með minnsta móti núna í aprílbyrjun, sem minnir á að kuldar og snjóþyngsli fara ekki alltaf saman enda er kaldasta norðanáttin gjarnan þurr og björt hér sunnan heiða. Veturinn fór seint af stað með hlýjum nóvember fór ekki að snjóa í fjallinu fyrr en um miðjan desember. Nokkuð bættist við í janúar en blautir hlýindadagar í febrúar áttu eftir að herja mjög á það sem þá hafði safnast fyrir. Ekki gerði marsmánuður mikið því hann var nánast úrkomulaus samhliða björtu frostaveðri.
Hvort snjórinn hverfur að þessu sinni kallar á nokkur spurningarmerki að venju. Fyrst og fremst er það skaflinn í Gunnlaugsskarði sem er þrálátur (þarna ofan við vinstra skiltið á myndunum). Skaflinn gæti verið harður í horn að taka eftir að hafa lifað nokkur ár en í venjulegri sumarveðráttu ætti hann að gefa sig um síðir, svo ekki sé talað um skaflinn í skálinni vestan við Kerhólakamb sem alltaf er þrautseigur, lengi eftir að vera orðinn lítill.
Að þessu sinni birti ég myndir aftur til ársins 2012. Serían nær hinsvegar aftur til 2006 og má sjá þær allar í Esju-myndalbúmi hér https://emilhannes.blog.is/album/esja_i_april/
ATH. Sé bloggfærslan skoðuð í síma er betra að snúa honum á hlið svo myndirnar birtist heilar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 8.4.2023 kl. 15:49 | Facebook
Athugasemdir
Veit ekki hvernig Esjan leit út í apríl 1966, en staðan nú minnir að ýmsu leyti á snjóamál þá - (miða við Hafnarfjall og Skarðsheiði). Veturinn var kaldur lengst af, en mjög úrkomulítill og undir haust varð snjóleysið í Skarðsheiði með eindæmum - svipað og síðar varð 2010. Nú var úrkoma töluverð í febrúar og þó það hafi verið hlýtt getur verið að snjóalög ofan við 700 metra hafi þá bjargast - en við fylgjumst með.
Trausti Jónsson, 9.4.2023 kl. 21:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.