17.7.2023 | 00:23
Gosgleði við Fagradalsfjall
Best að byrja á að nefna hér að eldsumbrot á Reykjanesskaga hafa löngum verið eitt af því sem ég hef innst inni haft löngun til að upplifa í þessu annars takmarkaða jarðlífi. Lengst af var ég þó mjög hæfilega bjartsýnn á að sú ósk rættist en vissi þó að möguleikinn væri til staðar enda Reykjanesskaginn nokkurn veginn kominn á tíma. Það hefði samt getað þýtt að atburðir gæti farið að gerast seint á þessari öld eða jafnvel ekki fyrr en á þeirri næstu. Vissulega var mér ljóst að eldar á skaganum gætu valdið margháttuðu tjóni og sett ýmislegt úr skorðum sem ég er ekkert að vonast eftir. Það breytti þó ekki upplifunaróskum mínum enda hafa þær engin áhrif á framgang mála. Snýst meira um hjá mér að upplifa merka atburði.
En svo var það í janúar árið 2020 að fréttir fóru berast sem gáfu til kynna að möguleikinn væri ekki svo fjarlægur. Vísbendingar voru þá um að jarðskjálftar á skaganum tengdust kvikusöfnun við Þorbjörn. Eitthvað sem maður hafði ekki heyrt áður nefnt með jafn sterkum hætti, en fram að því höfðu skjálftahrinur á skaganum ávallt verið tengdar eðlilegum gliðnunarhreyfingum án þess að kvika kæmi við sögu. Þetta þótti mér aldeilis tíðindi og eitthvað til að fylgjast með, samanber stuttaralega fb-færslu frá þeim tíma.
Rúmu ári síðar eða 19. mars 2021, eftir ótal jarðskjálfta, fór loksins að gjósa og það var nú aldeilis skemmtilegt gos þótt það hafi í raun verið alveg fáránlega lítið til að byrja með. En ólíkt öðrum gosum á Ísland þá færðist það í aukana eftir því sem á leið og stóð í sex mánuði með allskonar skemmtilegum og óvæntum uppákomum - og olli engu tjóni þegar til kom. Ekki nóg með það því gos númer tvö hófst svo þann 3. ágúst 2022 en stóð yfir í mun styttri tíma.
Þriðja gosið stendur nú yfir og eftir viku eldsumbrot sér ekki fyrir endann á því. Alls heimsótti ég sjö sinnum fyrsta gosið og tvisvar það næsta. Nálgaðist ég þau úr ýmsum áttum og fór gjarnan mínar eigin leiðir, opinberar og óopinberar. Í einni ferðinni í fyrsta gosinu munaði litlu að ég rambaði á týndan Ameríkana sem mikið var leitað að einn daginn, en hann fannst stutt frá þar sem ég var að þvælast norðaustur af gosslóðunum, ekki fjarri þar sem hraun rennur nú.
Nú er ég ekki búinn að heimsækja þetta nýjasta gos, enda hafa gosstöðvarnar verið lokaðar almenningi síðustu daga. Þar á undan hafði ein leið verið leyfð - einmitt í gegnum eiturgufurnar af gosinu og sinueldum, í eindreginni norðanáttinni. Ég ætla svo sem ekki að fjargviðrast mikið yfir þessum lokunum, en vitaskuld hefði ég tekið mið af aðstæðum og farið mína eigin leið. Sjáum til síðar. Allavega er ég nú þegar aldeilis búinn að upplifa eldgos í nærmynd þarna á skaganum. Nú læt ég mér nægja vefmyndavél ofan af Litla-Hrút. Sjónarspilið er mikið, útsýnið gott en auðvitað væri ég til í vera þarna sjálfur í stúkusæti.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Jarðfræði | Breytt s.d. kl. 00:32 | Facebook
Athugasemdir
Góður,Þú lúrir á fleiru þessu tengt.
Helga Kristjánsdóttir, 18.7.2023 kl. 15:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.