Eins og alvöru veðurdellumanni sæmir þá skrái ég veðrið á kerfisbundinn hátt í veðurdagbók og það hef ég gert daglega í rúmlega 20 ár. Úr þessum veðurfærslum má síðan gera ýmiskonar samantektir, töflur eða myndir og hér kemur ein slík.
Á myndinni sem hér fylgir sést hitafar yfir vetrarmánuðina í Reykjavík sl. 20 ár. Myndin skýrir sig vonandi að mestu leiti sjálf en hver láréttur borði táknar einn vetur og litirnir tákna hitafar. Þannig stendur dökkblár litur t.d. fyrir kuldakast með 5-10 stiga frosti að meðaltali, en orange táknar hlýjindi uppá 5-10 stiga hita. Myndin er einfölduð þannig að það sjást ekki stakir dagar heldur meðalhiti nokkurra daga í senn. Þetta er byggt á eigin skráningu á hita en til vinstri sést meðalhiti skv. tölum Veðurstofunnar. Þarna koma vel fram vetrarhlýjindin sem einkennt hafa síðustu árin og að kuldaköstum hefur farið fækkandi. Hvað komandi vetur mun bjóða uppá veit ég ekki en hann verður færður inn og síðan bætt við myndina þegar þar að kemur.
Flokkur: Vísindi og fræði | 28.10.2007 | 22:17 (breytt 12.11.2007 kl. 21:44) | Facebook