Allt er í heiminum hverfult

JonasÞau eru ekki mörg ljóðin sem ég kann utanbókar, en eitt sinn tók ég mig til og lærði ljóðið „Ísland! Farsælda Frón" eftir Jónas Hallgrímsson. Ætli mér hafi ekki fundist sem sönnum Íslendingi að maður ætti kunna svona grundvallarkveðskap eftir þjóðskáldið okkar. En það sem mér fannst einna áhugaverðast við ljóðið er hversu margar vel þekktar hendingar eða frasa það inniheldur sem notaðir hafa verið í gegnum tíðina við ýmis tækifæri, eins og: Landið er fagurt og fríttÞá riðu hetjur um héruð …  Hvar er þín fornaldar frægðHöfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg? Jónas orti þetta á sínum tíma til að efla þjóðernisvitund íslendinga í upphafi sjálfstæðisbaráttunnar en ekki síður til að vinna þeirri skoðun sinni fylgi að endurreist Alþingi Íslendinga ætti hvergi annarsstaðar heima en á hinum þjóðhelga stað Þingvöllum, í stað þess kuldalega, hálf-danska kaupstaðar sem Reykjavík var. Já, þá ortu menn ljóð og drápur miklar en nú er hún Snorrabúð stekkur og í dag er bara bloggað.

Þannig orti Jónas árið 1835:

Ísland! Farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héruð og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband