Íslensk náttúra séð ofan úr geimnum

Grænalón og Skeiðarárjökul

Þessi magnaða mynd gæti í fljótu bragði verið abstrakt-málverk eftir einhvern listamanninn. En svo er nú ekki því þetta er nú bara íslensk náttúra séð ofan úr geimnum og er fengin af hinni ágætu landaskoðunarsíðu, Google-map. Sé einhver í vafa hvaðan myndin er þá skal það upplýst að hér er kominn efri hluti Skeiðarárjökuls sem rennur úr Vatnajökli og niður á Skeiðarársand.

Þarna á myndinni má sjá ýmislegt athyglisvert. Vatnið sem þarna sést vestur af skriðjöklinum er Grænalón en það myndast vegna þess að jökullinn stíflar dalinn þar undir svo vatnið safnast þar fyrir. Á vissu millibili þegar vatnsmagnið í lóninu er orðið nægilegt, lyftir það upp jöklinum svo að lónið tæmist, vatnið hleypur fram og veldur flóði í Súlu og Núpsvötnum. Þetta gerðist síðast í júlí 2006 eftir því sem ég best veit. Lónið hefur hefur farið minnkandi hin síðari ár vegna þynningar á jöklinum sem aftur veldur því að hlaupunum fjölgar og þau verða minni í hvert sinn.

Það er líka athyglisvert að skoða skriðjökulinn. En vegna nálægðar sinnar við hin afar eldvirku Grímsvötn þá eru ýmis gömul öskulög áberandi í jöklinum en þau koma í ljós þegar sem jökullinn skríður fram og bráðnar og mynda þetta fallega mynstur. Eitt öskulagið þarna er meira áberandi en önnur, ekki veit ég þó úr hvaða gosi það er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Glæsileg mynd, fróðlegur pistill. Kærar þakkir.

Kv. 

Jón Agnar Ólason, 3.3.2008 kl. 23:03

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Náttúran sjálf er fallegasta listaverk sem til er... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2008 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband