8.4.2008 | 21:47
Fór á Al Gore
Auðvitað fór ég að sjá og hlusta á Al Gore, enda hef ég áhuga á loftslagsumræðunni og nokkrum sinnum skrifað um þau mál hér á blogginu, vonandi af einhverju viti. Þetta var flottur fyrirlestur hjá honum og áhrifamikill og skilaboðin voru skýr eins og vænta mátti: það hefur hlýnað mikið á jörðinni af mannavöldum og ef við gerum ekkert í málinu núna erum við í vondum málum.
Al Gore hefur verið einskonar tákngerfingur umræðunnar um hlýnun jarðar af mannavöldum enda skiljanlegt eftir alla þá vinnu sem hann hefur lagt í þetta málefni. Stundum mætti jafnvel ætla á umræðunni að hann sé persónulega ábyrgur fyrir kenningunum um hnattræna hlýnun af mannavöldum og því vill gagnrýnin á þær kenningar beinast að honum einum, oft á frekar illkvittinn hátt. En kenningin um hlýnun jarðar er ekki komin frá Al Gore. Hann hefur hinsvegar tekið að sér að vera boðberi þess sem alþjóðasamfélag loftslagsfræðinga hafa varað við að kynni að gerast ef mannkynið breytir ekki um stefnu í orkumálum og lifnaðarháttum, og fyrir það hefur hann hlotið fínustu viðurkenningar og líka harða gagnrýni.
Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru ekki allir vísindamenn sammála Al Gore í því að maðurinn sé að valda allri þeirri hlýnun sem óumdeilanlega hefur orðið. Sjálfur hef ég farið nokkra hringi í afstöðu minni og í dag veit ég satt að segja ekki alveg hverju skal trúa. Það hefur orðið mikið hnattrænt bakslag í hitafari síðustu mánuði sem er ekki góð auglýsing fyrir dómsdagspár hlýnunarsinna. Sumir segja að sólin sé aðal örlagavaldurinn í hitafari jarðar og ekki stjórnum við henni. Þær kenningar fengu heldur ekki góða auglýsingu nú á dögunum eftir rannsókn í tveimur breskum háskólum sem bentu til þess að virkni sólar hafi ekkert með þá hlýnun að gera sem orðið hefur síðustu áratugi (sjá hér) þótt hún hafi kannski haft sín áhrif á öðrum tímum. Ýmsar skammtíma- og langtímasveiflur í hitafari ráðast auðvitað af ýmsum þáttum. Tímabundnar breytingar og sveiflur í stórum veðurfarskerfum hafa t.d. sitt að segja eins og La Nina fyrirbærið í Kyrrahafi hefur sýnt undanfarið, en kannski hefur það einmitt verið mikil tíðni El Ninjo undanfarna áratugi sem hefur ýtt undir þeirri hlýnun sem orðið hefur. Aukningin á CO2 er hinsvegar ekki sveiflukennd, hún er stöðug, og áhrifin ættu að koma fram á löngum tíma og leggjast ófaná þá náttúrulega ferla sem annars eru í gangi. Spurningin er þó alltaf, hversu stór er hlutur CO2 og mannsins í þessu öllu saman.
Við vitum þó að CO2 er öflug gróðurhúsalofttegund, og gerir það að verkum að hér á jörðu ríkir ekki eilífur fimbulkuldi. Áhyggjur manna af því að við séum að hafa áhrif á loftslagið með því að brenna upp olíu og kolaforða jarðarinnar á svo skömmum tíma eru að mínu mati skiljanlegar. Ég ber virðingu fyrir stjórnmálamönnum sem velta þessu alvarlega fyrir sér án þess það snúist um einhverja hægri og vinstri pólitík. Umhverfisvernd þarf ekki að vera árás á kapítalismann og öfugt. Ef það kemur í ljós að áhyggjur manna af hnattrænni hlýnun reynast ástæðulausar, getur vel verið að einhverjir verða pínulítið spældir en við munum hinsvegar vera búin að öðlast miklu betri skilning á eðli lofthjúpsins og ekki síst betri nýtingu á dýrmætum orkugjöfum til framtíðar. Svo má heldur ekki útiloka það að aukin gróðurhúsaáhrif verði miklu alvarlegri en nokkur þorir að spá, vonandi þurfum við þó ekki að spá í það. Í fortíðinni hefur hitinn oft sveiflast snöggt upp á við eins og gerðist undanfarna öld, en hvort sem það er tilviljun eða ekki að það gerist núna einmitt sama tíma og mannkynið iðnvæðist og mannfjöldin fjórfaldast, er allavega umhugsunaratriði.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.