Ferðin sem næstum því var farin yfir Öræfajökul

tjöld

Ég hef í gegnum tíðina haft gaman af því að ganga á fjöll af öllum stærðum hvort sem það er Helgafell eða Hvannadalshnjúkur. Oftast sigrast maður á þeim verkefnum sem lagt er út í, en þegar þegar út í alvöruna er komið og um er að ræða landsins mestu fjallabálka verður ævintýramennskan stundum að víkja fyrir skynseminni.

DrangakletturÞað gerðist nú um helgina þegar ég ásamt þremur vönum fjallagörpum lögðum í ferð þar sem ætlunin var að ganga yfir Öræfajökul frá austri til vesturs og gista tvær nætur á leiðinni, þá seinni uppá jöklinum sjálfum í 2000 metra hæð. Á föstudaginn sl. ókum við frá Reykjavík austur að Fjallsárlóni og gengum þaðan fram í myrkur uns við vorum komnir á Ærfjall sem er á milli Fjallsjökuls og Hrútárjökuls þar sem við svo gistum um nóttina í talsverðu frosti. Morguninn eftir þegar leggja átti í gönguna miklu upp á jökulinn voru komnar ýmsar efasemdir á leiðangursmenn en fara átti leið sem liggur um nokkur jökulsker, um Drangaklett og upp að Sveinstindi við austurenda Öræfajökulsöskjunnar. Þótt við hefðum skoðað leiðina rækilega á myndum og kortum sáum við að aðstæður voru öllu stórkarlalegri og vafasamari en við áttum von á, sprungusvæðin ekki árennileg, mikill snjór á leiðinni sem erfitt var að ganga í með þungar byrðar á bakinu og síðast en ekki síst sáum við að veðurútlitið var að verða vafasamt þarna á toppnum. Það var því ákveðið þarna að taka lífinu með ró, kannski að reyna aftur síðar og fara þá aðra leið, enda er þessi leið yfirleitt ekki farin á jökulinn.

Þótt ferðin hafi verið styttri en til var ætlast var þetta þó mjög tilkomumikil og skemmtilegt ferð á fáfarnar slóðir. Það var t.d. athyglisvert að ganga á milli jökulsporðanna á milli Fjallsjökuls og Hrútárjökuls en þeir skriðjöklar hafa fram að þessu náð saman á láglendi og teiknaðir þannig á öllum landakortum. Nú hafa þeir hinsvegar hopað það mikið að að fært er á milli þeirra um jökulurð. Landið þarna við jökulsporðana eins og víða annarstaðar er í sífelldri þróun vegna minnkandi jökla, ný lón myndast, nýir klettaveggir koma í ljós og ár breyta um farveg, þannig að það er alveg óvíst hvernig þetta svæði mun líta út næst þegar maður verður þarna á ferð. 

 leiðarkort

Kort: leiðin sem var farin og það sem átti að fara

Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hetjur... gott að skynsemin var samt látin ráða. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 10:20

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Emil,

Var þarna fyrir stuttu og tók þá "risamynd" af Vatnajökli frá ýmsum sjónarhornum. Sumar myndirnar eru allt að 1Tb á stærð og gæðin eftir því.

Hér er slóð á eitthvað af myndunum úr ferðinni:

http://www.photo.is/08/04/1/index_9.html

Ef þú vilt fá að skoða myndirnar í alvöru upplausn, sendu mér þá e-mail og ég sendi þér slóðina.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 17.4.2008 kl. 06:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband