4.5.2008 | 14:15
Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?
Um þessar mundir er komið að ögurstund sem gæti ráðið því hvort farið verði í framkvæmdir við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu þar sem reisa á Bitruhálsvirkjun en frestur til að senda Sveitarfélaginu Ölfusi athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Ölkelduháls á Hengilssvæðinu rennur út 13. maí. Til að leggja mitt af mörkum til verndar óspilltri náttúruperlu í nágrenni höfuðborgarinnar birti ég hér myndir og texta sem kemur fram á plakati sem gefur hefur verið út til að vekja athygli á fyrirhugaðri virkjun.
- - - - - - -
Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2002-2004. Hér er vakin athygli á atriði nr. 1 í auglýsingunni er varðar Bitruvirkjun:
285 ha opnu, óbyggðu svæði Bitru / Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Þetta svæði er skilgreint sem útivistarsvæði. Hér er afar fjölbreytt landslag; fjöll grænir dalir, fossar og lækir heitir og kaldir hraunmyndanir og heitir hverir. Svæðið er virkt eldfjallasvæði austan Hengils. Þar eru fjölbreyttar gönguleiðir, t.d. leiðin frá Reykjadal í Innstadal sem liggur hjá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.
Frá framkvæmdasvæðinu, sem er um 5 km fyrir norðan þjóðveg nr. 1, er fallegt útsýni til norðurs yfir Þingvallavatn, Langjökul og Skjaldbreið.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð. Útivistarperlan er austast á framkvæmdasvæðinu en þaðan mun fyrirhuguð gufuaflsvirkjun blasa við.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð, stöðvarhús, kæliturna, borpalla, borholur, heitavatnsleiðslur og háspennulínur, o.fl.
Myndirnar eru frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og umhverfi þess. Þessar perlur eru steinsnar frá frá höfuðborgarsvæðinu og auðvelt fyrir alla að nálgast þær.
Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að vernda þetta ómetanlega svæði eru hvattir til að senda inn athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn, fyrr 13. maí nk. Frekari upplýsingar er að finna á www.hengill.nu.
Athugið að öllum er heimilt að gera athugasemd, ekki einungis íbúum sveitarfélagsins.
- - - - - - -
Bloggvinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir www.larahanna.blog.is hefur verið duglega að skrifa pistla um þetta mál og þar má finna ýtarlegri upplýsingar um þessar vafasömu framkvæmdir. Ljósmyndirnar eru frá öðrum bloggvini: Kjartani Pétri Sigurðssyni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Facebook
Athugasemdir
Þú ert yndislegur, Emil... TAKK !
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.5.2008 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.