9.6.2008 | 18:25
Hinn sjaldgæfi 20 stiga hiti í Reykjavík
Nú þegar sumarið er komið fyrir alvöru má fara að velta því fyrir sér hvort þetta verði eitt þeirra sumra sem nær að rjúfa 20 stiga múrinn hér í Reykjavík. Þótt meðalhitinn í Reykjavík sé hærri allt árið en á norður- og austurlandi, erum við hér þannig í sveit sett að 20 stiga hiti er eitthvað sem við borgarbúar upplifum sem merkisviðburð enda geta liðið mörg sumur án þess að það gerist. Frá árinu 1930 telst mér til að komið hafi 22 sumur þar sem hitinn hafi einhvern tíma náð 20 stigum, þannig að við getum samkvæmt því verið að tala um ca. þriðjung sumra. Lengsta tímabil án 20 stiga hita í Reykjavík voru sumrin 1961-1975 eða 15 sumur samfleytt. Síðustu árin hefur 20 stiga sumrum farið eitthvað fjölgandi með auknum hita og á þessari öld hafa þau orðið fjögur. (Nánar um þetta í næstu færslu)
Þótt ég sé nú enginn alvöru veðurfræðingur þá geri ég mér grein fyrir því að ástæðan fyrir þessum skorti á 20 stigum sé nálægð borgarinnar við sjóinn og staðsetningin hér suðvestanlands. Þegar hlýir loftmassar berast til landsins úr suðri, eins og oft gerist, dugar það okkur ekki hér, því þá sitjum við gjarnan í súldinni á meðan hitinn á norð-austurlandi rýkur upp úr öllu valdi. Sólskinsáttirnar úr norðri eru hinsvegar of kaldar að upplagi til að hífa hitann mikið yfir 15 stigin og þegar hæðarsvæði er yfir okkur með björtu og fallegu sumarveðri er alltaf stutt í hafgoluna sem kælir venjulega um nokkrar gráður.
Ætli vænlegasta staða veðurkerfanna til að færa Reykvíkingum almennilegan 20 stiga, sé ekki þessi sem ég hef teiknað hér upp. Lægð fyrir vestan Bretlandseyjar og hæð vestur af Noregi dæla í sameiningu hlýju meginlandslofti til okkar alla leið frá Evrópu. Þetta loft þarf að koma að landi austanlands að sumarlagi, hreinsa sig af skýjum á leið sinni vestur til okkar og svo þarf vindurinn að vera nægjanlegur til að halda aftur af svalandi hafgolunni. Útkoman gæti þá að verið yfir 20 stigum en því miður verðum við að sætta okkur við mistrið sem gjarnan fylgir þessu mollulega en sjaldgæfa lofti frá Evrópu. Hugsanlega gætum við fengið upp þessa stöðu einhverntíma í sumar og svo almennilega hitabylgju í kjölfarið. Ef eitthvað er að marka langtímaspár sem gefnar hafa verið út fyrir sumarið, má einmitt búast við að lægðirnar fari vel fyrir sunnan land með stefnu á Bretland sem gæti aukið líkurnar á svona hlýindum hér suðvestanlands.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 15.12.2008 kl. 11:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.