Hitaspá fyrir næstu þrjá mánuði hér á jörð

MetOffice_temperature

Breska veðurstofan Met Office birtir á sinni heimasíðu með reglulegu millibili spá fyrir hitafar og úrkomu á jörðinni þrjá mánuði fram í tímann og nú er komin út spá sem gildir mánuðina frá júlí til september. Mér datt í hug að birta hitaspána hér á síðunni enda ýmislegt þarna sem mér finnst athyglisvert svona í samhengi við það sem hefur verið í umræðunni og það sem ég hef sjálfur verið að burðast við að skrifa um.

Í fyrsta lagi þá kemur þarna fram að við á Íslandi munum líklega njóta hlýinda þessa mánuði. Sama gildir einnig um stærsta hluta Evrópu, Bandaríkjanna og reyndar mestallt Norður-Atlantshafssvæðið.

Svo kemur þarna fram köld spá fyrir Norður-Íshafið sem ætti að minnka líkurnar á því að norðurpóllinn verði íslaus í haust eins og kom fram í fréttum að gæti gerst. Um það skrifaði ég reyndar nokkur orð í síðustu færslu. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn í langan tíma sem spáð er einhverju öðru en hlýindum þarna við Norður-Íshafið, þannig að þetta gæti verið til merkis um einhvern viðsnúning þarna.

Í hafinu kringum Suðuskautslandið eru hinsvegar hlýindi á ferðinni, en á meginlandinu þar suðurfrá er hitinn nálægt meðallagi, en Suðurskautið er sennilega það svæði sem helst hefur farið á mis við hnattræna hlýnun síðustu áratugi.

Í hinu stóra Kyrrahafi má sjá appelsínugula rönd við miðbaug sem þýðir að hinn hlýi El Niñjo straumur hefur eitthvað náð sér aftur strik eftir að hið kalda La Niñja veðurkerfi hefur kælt þarna stórt svæði undanfarið ár. En sveiflurnar í þessum veðurkerfum eru taldar hafa áhrif á veður og hitafar víða um heim.

Síðan er það bláa kalda skeifan á norður-Kyrrahafinu og liggur að ströndum Kanada og Bandaríkjanna. Það mun vera fyrirbærið Pacific Decadal Oscillation sem ég skrifaði um á sínum tíma (hér). Þetta kerfi virðist skipta um ham á 20-30 ára fresti og er nú nýlega komið í sinn kalda fasa. Samkvæmt gögnum sem ná sirka öld aftur í tíman vill svo til að hnattræn hlýnun hefur nokkurn vegin stöðvast þá áratugi sem kerfið hefur verið í þessum kalda fasa en hlýnunin síðan rokið upp úr öllu valdi þegar kerfið er í hlýjum fasa.

Svo að lokum verður alltaf að hafa í huga að spár eins og þessar eru spár en ekki staðreyndir. Sama gildir líka um hamfaraspár sem alltaf koma upp annað slagið. Við vitum kannski ekki alltaf hversu mikið eða lítið við vitum. Eins er kannski líka um þetta sem ég er að skrifa hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband