Örlítil veðurminning 2

Sumardag einn á áttunda áratugnum þegar ég var á ellefta ári datt okkur vinunum í hug að fara í dálítinn leiðangur út fyrir borgina. Að ráðleggingu foreldra útbjuggum við okkur með nesti og góðar skjólflíkur, albúnir að takast á við þau veðurfarslegu öfl sem búast má við hér á landi. Tekinn var strætisvagn upp í efstu byggðir og stefnan síðan tekin fótgangandi yfir holt og hæðir á ákvörðunarstaðinn sem var hellir nokkur í Heiðmörk. Veðrið var gott en fór ört hlýnandi og brátt vorum við farnir að binda á okkur peysurnar, skyrturnar og utanyfirflíkurnar sem áttu að verja okkur gegn köldum vindum. Leiðangurinn gekk annars vel og við fundum hellinn sem ég vissi síðar að heitir Maríuhellir. Eftir að hafa átt þar góðan dag fórum við á puttanum til byggða og svo með Hafnarfjarðarstrætó til Reykjavíkur. Þegar vagninn ók í bæinn sá maður fljótt að yfirbragðið á bæjarlífinu var með allt öðrum hætti en maður átti að venjast á þessum árum því hvarvetna mátti sjá léttklætt fólk á ferli og menn bara á skyrtunni með uppréttar ermar og jakkann undir hendinni. Það voru því fleiri en við sem fundum fyrir hitanum þennan dag og kannski ekki nema von því þessi dagur var einmitt heitasti dagur 20. aldarinnar í Reykjavík, þegar hitinn fór í heilar 24,3 gráður, þann 9. júlí 1976.

(Örlítil veðurminning nr.1 birtist 3. februar. sl.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í Heiðmörk mældust þennan dag 24,9 stig og á Hólmi fyrir innan Reykjavík 25,0.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.7.2008 kl. 12:50

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta fer nú að verða frekar fúlt. Ég svaf af mér veðrið sem þú lýstir í veðurminningu númer eitt og ég var ekki á landinu þegar þessi hitabylgja gekk yfir. Hvað næst? 

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.7.2008 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband