26.10.2008 | 13:15
Britney Spears - I was born to make you happy
Ég hef í mínum skrifum ekki mikið fjallað um fólk og hef til dæmis aldrei nefnt á nafn einn einasta íslenskan stjórnmálamann. Ef ég nefni yfirleitt einhvern á nafn eru það helst persónur sem hafa auðgað anda vorn með listrænum tilburðum sínum svo sem ýmsir tónlistarmenn eða aðrir listamenn. Ég læt hinsvegar aðra um að gagnrýna pólitíkusa jafnvel þótt allt sé hér komið í kaldakol, en sjálfur held ég mig við þá speki sem vert er að hafa í huga, að leiðin til glötunar er ávallt vörðuð góðum áformum.
En þá er komið að aðalnúmeri þessa pistils sem er hin elskaða og dáða söngkona Britney Spears. Sú hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla á sínum ferli. Sem ung og saklaus stúlka fór hún í útrás og áformin voru góð. Hún lagði heiminn að fótum sér sem hin alsaklausa hreina mey og varð hvarvetna glæsileg fyrirmynd ungra stúlkna. Um síðir átti hún eftir að kynnast hinum harða heimi og þrátt fyrir góð áform varð ljóst að leiðin sem hún valdi sér í góðri trú lá eiginlega bara beinustu leið til glötunnar. En það má samt ekki missa vonina og eitthvað hefur ræst úr hjá henni Britneyju okkar - hún hefur allavega endurheimt sínu ljósu lokka og jafnvel einnig sitt lokkandi augnaráð, samkvæmt heimildum.
Britney Spears átti góða daga sem upprennandi stjarna á árunum um og eftir 2000, þegar allt lék í lyndi hjá henni. Í laginu sem hér fylgir segist hún vera fædd til að stuðla að hamingju okkar. Við þökkum fyrir það, enda er fátt göfugra en að gefa af sér öðrum til ánægju og gleði. Það má samt skynja þarna í myndbandinu að kannski eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Hvað með þennan unga mann þarna sem birtist í fráhnepptri skyrtu, er hann allur sem hann er séður? Ég er ekki viss.
Myndband mánaðarins á þessari síðu heitir: I was born to make you happy, með Britney Spears og kom út á hennar fyrst plötu
Baby One More Time snemma árs 1999 þegar hún var á 18. ári og ef ég á að segja eins og er þá finnst mér þetta bara vera hið ágætasta lag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.