21.12.2008 | 12:54
Vetrarsólstöður, Keilir og jólin
Þegar sólin sest í dag, á stysta degi ársins hverfur hún á bakvið fjallið Keili, séð frá Suðurgötunni og Ægisíðunni í Reykjavík. Það má alveg halda því fram að þetta sé ekki tilviljun. Til forna voru ýmis kennileiti í landslagi notuð til að marka sólarganginn sem gæti komið ágætlega saman við myndina hér að ofan sem ég tók við Ægisíðuna um vetrarsólhvörf árið 1981, en þar sést sólin setjast bakvið fjallið Keili og ef vel er að gáð má sjá Bessastaði í sólroðanum.
Það má vel ímynda sér að hinn píramídalagaði Keilir hafi verið tilvalinn sem viðmiðunarpunktur á gangi sólar og jafnvel átt sinn þátt í því hvar fyrsti landnámsmaðurinn hafi valið bæ sínum stað. Sólin, tunglið og stjörnurnar skipuðu stóran sess í trúarlífi fólks til forna. Þegar sólin hafði sest bakvið fjallið á stysta degi ársins var beðið milli vonar og ótta þar til ljóst var að guðunum hafði þóknast að lengja sólarganginn á ný. Það kom hinsvegar ekki í ljós fyrr en 2-3 dögum eftir vetrarsólstöður og þá var ástæða til fagna nýju ári með nýrri fæðingu sólarinnar og frelsara mannanna. Sú hátíð heitir í dag jól.
Fyrir mörgum árum var í sjónvarpi allra landsmanna frétt um þessi tengsl milli staðsetningar Reykjavíkur, sólarinnar og Keilis við vetrasólhvörf og voru þá fleiri staðir nefndir til sögunnar. Ef dregin er lína milli miðbæjar Reykjavíkur og Keilis kemur í ljós að sú lína liggur einnig um Bessastaði á Álftanesi og Kapelluhraun við Straumsvík, en af einhverjum ástæðum hefur það þótt helgur staður til forna. Ef línan er hins vegar framlengd í hina áttina frá Reykjavík í norðaustur liggur hún um kirkjustaðinn og landnámsbæinn Brautarholt á Kjalarnesi, og hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá liggur línan einnig um Saurbæ í Hvalfirði og áfram upp í Reykholt í Borgarfirði, en þeir staðir eru að vísu ekki í sjónlínu við Keili.
Þessar vangaveltur tengjast vitanlega því sem fræðimaðurinn Einar Pálson hélt fram á sínum tíma en hann rannsakaði mikið landshætti á Rangárvöllum og hvernig landslagið þar væri hugsanlega notað sem einskonar sólúr sem í leiðinni endurspeglaði skipan heimsins. Hann gaf svo út bækur um ýmiss konar tölfræði tengdri gangi sólar og hvernig rætur íslenskrar menningar tengjast goðsagnarheimi fornra Miðjarðarhafsþjóða og Kelta.
Því hefur líka verið haldið fram að rætur kristninnar liggi víða og eigi sér lengri sögu en almennt er talað enda virðist Jesú eiga sér ýmsa bræður í eldri trúarbrögðum sem fæðast allir á jólinum sem einskonar frjósemisguðir og mannkynsfrelsarar. En hvort sem menn telja sig sannkristna eða eitthvað annað þá er full ástæða til að taka hina ævafornu hátíð, jólin, hátíðlega.
- - - - -
Nánar um fræði Einars Pálssonar má lesa hér (tekið saman af Pétri Halldórssyni).
Einnig má vísa í Ágúst H. Bjarnason sem skrifaði í gær um 5.000 ára grafhýsi á Írlandi sem tengist náið vetrarsólhvörfum. (Sjá hér)
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Þetta var mjög fræðileg að lesa. Takk fyrir og gleðileg sólstöðuhátíð!
Kveðju, Meike
Meike (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 18:21
Gaman væri að rifja upp kenningar Einars og allar hans tölur. Gæti reynst strembið með allar þessar neikvæðu tölur Íslenska ríkisins stöðugt yfir sér :)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 22.12.2008 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.