Veðurfregnir

Veðurkort 27.des2008

 

Þegar þetta er skrifað að kvöldi Þorláksmessu lítur ekki út fyrir annað en að jólin gangi í garð á tilsettum tíma á morgun, jafnvel þrátt fyrir að öllum jólasnjónum hafi skolað á haf út í slagviðri gærkvöldsins. Lægðargangur með öllum sínum landsynningum og útsynningum á víxl þykir svona almennt ekki vera ákjósanlegt veðurlag. Lægðin sem olli rigningunni í gærkvöldi (22.des) var sú fyrri í tveggja lægða seríu, en sú seinni er um það bil að skella á með meiri rigningu sem fylgir suðaustan-landsynningnum, en síðar slydduéljum sem taka völdin þegar suðvestan-útsynningurinn tekur völdin á aðfangadag.

Þegar þessi seinni lægð hefur lokið sér af hér við land, er ekki annað að sjá samkvæmt þeim kortum sem ég hef grafið upp en að hingað komi engar fleiri lægðir fyrr en einhvern tíma árið 2009. Þetta má t.d. sjá á kortinu hér að ofan þar sem heilmikið hæðarsvæði hefur breitt úr sér yfir allri Evrópu og veldur þar allsherjar veðurleysu. Áhrifin af völdum hæðarinnar ná alla leið til Íslands þannig að við verðum í mildri sunnanátt á meðan lægðirnar vestur af landinu komast hvergi en stefna þess í stað norður með Grænlandi.

Í framhaldi af þessu er því svo spáð að hæðin fikri sig jafnvel nær Íslandi svo úr verður hugsanlega eitt af bestu áramótaveðrum sem komið hafa um gjörvallt land um langan tíma. Þá mun kuldinn hellast yfir Evrópu og hlýna þess í stað á Grænlandi en eins og allir vita þá er alltaf hlýtt vestan megin við hæðir en kalt austan megin við þær, þ.e. réttsælis snúningur á vindi. Ef hæðarmiðjan nær til Íslands verður hinsvegar ekkert rangsælis eða réttlætis í veðrinu og vonandi ekkert ranglæti heldur.

Gleðileg jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gleðileg eldrauð jól Emil!

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.12.2008 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband