27.2.2009 | 23:53
Ljúft er að láta sig dreyma
Óhætt er að segja að margt stórmennið hafi einkennt sjónvarpsdagskrána sunnudagskvöldið 10. október árið 1993 en þá voru mættir á skjáinn þeir Burt Reynolds, Leonard Bernstein að ógleymdum Árna Johnsen.
Ekki get ég þó sagt að ég muni sérstaklega eftir þessum þáttum en hinsvegar man ég vel eftir framhaldsþættinum sem var á dagskránni þetta sama kvöld sem hét á íslensku Ljúft er að láta sig dreyma eða Lipstick on Your Collar á frummálinu og voru skrifaðir af Dennis sáluga Potter, en hann gerði einnig handrit af öðrum góðum seríum á borð við Pennies from heaven og The Singing Detective. Ég veit reyndar ekki um marga sem sáu þessa þætti hvernig sem stendur á því, en þarna árið 1993 voru auðvitað þeir dagar liðnir að landsmenn settust fyrir framan sömu sjónvarpsdagsskrána eins og áður var.
Í þáttunum Lipstick on Your Collar segir af ungum manni sem gegnir herskildu sinni með störfum í bresku leyniþjónustunni sem rússneskuþýðandi og gerist sagan á þeim tíma þegar Súez-deilan stendur sem hæst árið 1956-57. Það er ýmislegt sem truflar huga unga mannsins, ekki síst örlaga- og draumadís þáttarins sem svo illa vill til að er einmitt trúlofuð liðsforingjanum illræmda. Rokkið og rólið er einnig ofarlega í huga piltsins og í einhæfri þýðingarvinnunni er ljúft að láta sig dreyma en þá lifna hinir alvarlegustu menn við og bresta í söng, í þykjustunni að vísu. Tónlistaratriðin er einmitt eitt aðaleinkenni þeirra þátta sem Dennis Potter skrifaði. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með að fella söngatriði inn í kvikmyndir og sjónvarpsþætti en það hefur sjaldan verið gert betur en í þessum þáttum.
Hér á eftir kemur lítið atriði úr fyrsta þætti en þar má ásamt fleirum sjá aðalsöguhetjuna sem leikin er af Ivan McGregor, en lagið Little Bitty Pretty One sem þarna hljómar er flutt af Frankie Lymon. Þættirnir Ljúft er að láta sig dreyma eru annars sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu.
Athugasemdir
Í þessum þáttum er eitt fyndnasta atriði sem ég hef séð á mynd.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.3.2009 kl. 01:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.