Báxít og álvinnsla

Báxít dós

Ég bý svo vel að eiga dálítinn báxítklump sem mér áskotnaðist eitt sinn. Eins og sjá má er þetta rauðleitur steinn og mjög götóttur, en fyrir þá sem ekki vita er báxít eins og þetta, frumhráefnið fyrir álvinnslu. Báxít er málmgrýti með ál sem uppistöðuefni auk súrefnis og vetnis (Al(OH)3) en ál er reyndar algengasti málmur jarðskorpunnar svo undarlega sem það hljómar. Báxítnámur er að finna víða í hitabeltinu, t.d á Jamaíka og Indlandi og til að slík námuvinnsla geta hafist þarf gjarnan að ryðja skógi vaxin svæði, regnskóga meðal annars. Súrálsverksmiðjur taka við báxítinu þar sem flókið orkufrekt efnaferli fer fram en út úr því kemur annars vegar súrál og hins vegar rauður leðjuúrgangur, mengaður vítissóda sem notaður er til vinnslunnar. Engin not eru fyrir rauðu leðjuna enda skaðlegt efni og því er henni komið fyrir aftur í náttúrunni.

Súrálið (Al2O3) er hvítt púðurkennt duft og er það gjarnan flutt langa vegu til álverksmiðja þar sem seinni hluti álvinnslunnar á sér stað. Framleiðslan eða álbræðslan fer fram í kerjum við 960°C hita en hvert ker er fóðrað með kolefnislagi sem um leið er rafskaut. Álvinnslan á sér nefnilega stað við svokallaða rafgreiningu, sem er ein aðalástæða þess hve orkufrekur iðnaður þetta er. Við rafgreininguna verður til hreint ál en súrefnið  sem losnar binst við kolefnið í rafskautunum svo úr verður koltvísýringur (CO2) í miklu magni, en það er einmitt gróðurhúsalofttegundin alræmda sem þróaðri þjóðir heimsins eru að reyna að takmarka losun sína á. Fleiri úrgangsefni verða til við álvinnslu eins og t.d. flúor (F) og brennisteinsdíoxíð (SO2) auk ryks, mismikil áhersla er á að hreinsa þessi efni úr útblæstrinum enda ekki einfalt mál.

Þar sem áliðnaður er eins orkufrekur og raunin er, þá er álverum gjarnan valinn staður þar sem auðvelt er að framleiða mikla orku eins og á íslandi. Talað er þá gjarnan um hreina orkugjafa sem ganga ekki út á brennslu jarðefnaeldsneytis en í staðin eru heilu stórfljótin stífluð, farvegi þeirra breitt og vatninu safnað í uppistöðulón sem gjörbreyta ásýnd landsins. Einnig er farið að nýta orku úr iðrum jarðar með borholum á háhitasvæðum en því fylgir einnig mikil röskun á því sérstaka landslagi sem þar er oftast að finna. Fegurð landslags er vissulega alltaf smekksatriði en mörgum finnst, að því er virðist, að landslag sé þeim mun ljótara eftir því sem það nýtist betur til orkuvinnslu.

Ál er til margra hluta nytsamlegt. Það er t.d. mikið notað í samgöngutækjum enda bæði létt og sterkt. Þessa stundina er að vísu ekki mikil eftirspurn eftir samgöngutækjum og því hefur verð á áli lækkað í heiminum. Þessi málmur sem útheimtir svona mikla fyrirhöfn og orku til að framleiða, kemur almenningi helst fyrir sjónir í formi áldósa undir gosdrykki og bjór. Í Bandaríkjunum þykir málmurinn þó ekki merkilegri en svo að flestum áldósum er hent í ruslið eftir notkun og í meira magni en það ál sem við Íslendingar framleiðum í dag, en eins og gjarnan er þá vilja menn frekar halda uppi vinnslunni á öllum stigum ferlisins frá grunni í stað þess að endurnýta. Sem er kannski eins gott, segja sjálfsagt sumir, því þá gæti okkar göfuga framlag til „hreinnar“ álvinnslu í heiminum verið í hættu. 

- - - - - - 
Nokkrar heimildir:
Að ógleymdri bókinni, Draumalandið, eftir Andra Snæ.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Takk fyrir þennan pistil Emil.

Full þörf á að upplýsa almenning um þessa hluti á einfaldan, auðskilnn hátt

Þórbergur Torfason, 21.4.2009 kl. 02:01

2 Smámynd: Loftslag.is

Takk fyrir þetta.

Loftslag.is, 21.4.2009 kl. 10:31

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hér á bls. 5 er uppskrift að einu tonni af áli. 
Það virðist ekki vera hlaupið að því að gera rauðu leðjuna skaðlausa.

Pétur Þorleifsson , 24.4.2009 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband