20.5.2009 | 22:11
Veggjakrot og steinristur í Örfirisey
Örfirisey er merkilegur staður og þangað lagði ég leið mína í landkönnunarferð einn góðviðrisdaginn núna í mánuðinum. Ég endaði þar á merkilegum slóðum sem ég hafði ekki komið á áður, það er að segja á bakvið olíutankana miklu sem þar eru. Það er þó greinilegt að einhverjir hafa stungið þarna niður fæti á undan mér og skilið eftir sig ummerki. Bæði er þarna mikið veggjakrot á útveggjum olíustöðvarinnar en einnig má finna þarna merkilegar steinristur í óspilltum sjávarklöppunum yst á eynni. Þessar steinristur þykja reyndar það merkilegar að þær eru skráðar sem Borgarminjar og er staðurinn merktur sem slíkur með litlu skilti.
Þessi norðvesturendi Örfiriseyjar er þó greinilega fáfarinn í dag, en helst eru það greinilega spreyjarar sem gera sér ferð þangað nú á dögum, en veggurinn meðfram olíubirgðastöðinni er víst einn af fáum stöðum í borginni þar sem listrænt ungviðið fær að iðka sína veggjakrotslist í friði og í fullum rétti. Sjálfsagt myndi mörgum finnast umhverfið þarna vera full harkalegt enda ekki beint rómantískur blær yfir myndmáli veggjakrotsins og ekki er olíustöðin með sínum stóru tönkum og óþef vel til þess fallin að auka mönnum andagift vegna fegurðar náttúrunnar.
Annað hefur verið uppi á teningnum í gamla daga þegar menn ristu stafina sína og tjáðu jafnvel ást sína með því að meitla hana í stein á kvöldgöngutúrum. Frá hernámsárunum má einnig sjá þarna nöfn bandarískra dáta en elstu og merkilegustu steinristurnar er öllu eldri, eða frá þeim tímum er kaupahéðnar stunduðu verslun þarna út í eyju.
Hér koma svo nokkrar myndir úr umræddum leiðangri sem var farinn síðdegis þann 17. maí 2009.
Göngustígur á uppfyllingu endar hér.
Vel merktur hvíldarstaður
Ónafngreindur listamaður að störfum.
Borgarminjar framundan
Tankar og klappir. Þessi ysti oddi Örfiriseyjar heitir Reykjarnes og þar eru umræddar steinristur sem teljast nú til borgarminja.
Ekki veit ég hvaða ástfangna par ritaði þetta né hvenær.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
skemmtileg og fróðleg pæling
Aðalheiður Valgeirsdóttir (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 22:25
Ekki hafði ég grænan grun um þetta - takk fyrir ábendinguna.
Höskuldur Búi Jónsson, 22.5.2009 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.