Útsynningur

Veðrið eins og það hefur verið í Reykjavík síðustu tvo daga er það sem kallast útsynningur. Þótt þetta sé nokkuð algeng gerð af veðri á okkar slóðum virðist fólk oft lítið vita hvaðan á sig stendur veðrið við þessar aðstæður. Það er sjálfsagt vegna þess hvernig útsynningurinn lýsir sér, stundum er glaðasólskin og heiðblár himinn en fyrr en varir skellur hann á með hryssingslegum skúradembum öllum að óvörum og þannig gengur þetta fyrir sig á víxl hvað eftir annað. Að auki er svo vindurinn annar fylgifiskur útsynningsins en hann kemur úr sömu átt og sólin enda er þetta jú sunnanátt eins og nafnið bendir til. Þess vegna henta sólarglæturnar ekki vel til sólbaða vilji einhver nýta sér þær á milli regnskúranna. Vindáttin verður þó vestlægari þegar líður á.

Veðurfræðilega séð er auðvitað ekkert skrýtið við útsynning enda er allt rökrétt í náttúrunni og nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að útskýra fyrirbærið.

skil

Á teikningunum hér að ofan má sjá hvað gerist þegar skilakerfi lægðar gengur yfir landið. Fyrst koma meginskil sem geta ýmist verið svokölluð samskil eða þá hitaskil. Þegar þau eru að nálgast fáum við landsynning sem einkennist af samfelldri rigningu með suðaustanátt. Hlýi geirinn sem er á milli hita- og kuldaskilanna nær ekki alltaf inn á landið og ef hann gerir það ekki förum við beint úr landsynningi í þennan umtalaða útsynning.

Loftmassinn sem berst til okkar með útsynningi er uppruninn úr vestri og gjarnan frá köldum svæðum vestur í Kanada en þegar lægðarmiðjan er á milli Íslands og Grænlands sér hún um að dæla því hingað. Þetta kalda loft berst yfir hlýrra hafið og þá hlýnar neðsta loftlagið en við það skapast óstöðugleiki því hlýtt loft er eðlisléttara en kalda loftið fyrir ofan. Því stígur loftið upp og myndar skúraský sem hellast yfir landið okkar. Á veturna myndast hinsvegar éljaklakkar af sömu ástæðum og útkoman verður hvít jörð á suður- og vesturlandi.

Aðstæður í hlýja geiranum á milli kulda og hitaskilanna er í raun andstæða útsynningsloftsins. Það loft er ættað frá hlýrri svæðum og því myndast þar ekki þessi óstöðugleiki. Einkenni veðursins í hlýja geiranum eru lágský eða súldarloft sem verður til vegna þess að þar kólnar hlýja loftið yfir kaldari sjónum og rakaþéttingin verður nær yfirborðinu. Stundum eru aðstæður þannig að við erum í svoleiðis lofti nokkra daga í senn en við þær aðstæður verða bestu sólskins og hitaveðrin norðanlands.

Að lokum kemur hér splunkuný MODIS-gervitunglamynd frá því í dag, 29. maí, en þar má sjá skúraskýin streyma til landsins úr suðvestri. Ísland er þarna til hægri á myndinni en uppi í vinstra horninu er Grænland í björtu veðri með hvítan hafísinn við strendurnar.

MODIS_utsynningur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Skemmtilegur fróðleikur hjá þér.

Við hérna á Akureyri erum að upplifa ágætis veður, en það sem kemur fram í þinni grein, þá er lofthitinn alls ekki í takt við það sem maður hefði ætlað að væri í sólinni.  Lofthitinn er sem sagt ekki hár og því "lítið sumar" nema í skjóli sé.    Vonandi fáum við loft frá hlýrri svæðum sem fyrst og þar með hærri lofthita.

Páll A. Þorgeirsson, 30.5.2009 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband