20.10.2013 | 12:41
Hver er heimsins stærsta eyja í vatni á eyju í vatni á eyju?
Landafræði snýst gjarnan um hvar sé að finna stærstu fyrirbæri náttúrunnar, svo sem stærstu vötnin, hæstu fjöllin, lengstu árnar o.s.frv. og auðvitað líka nöfnin á hverju fyrir sig. Hér fer á eftir dálítil vatna- og eyjalandafræði sem vissulega snýst um hið stærsta og mesta en þó með öðrum hætti en venjulega.
STÆRSTA EYJAN OG STÆRSTA VATNIÐ. Grænland er stærsta eyja í heimi en Kaspíahaf er stærsta vatn í heimi samkvæmt skilgreiningu. Dveljum ekki lengur við það.
STÆRSTA VATNIÐ Á EYJU. Vestan við Grænland er hin hrjóstruga eyja Baffinsland sem er stærsta eyja Kanada og fimmta stærsta eyja í heimi. Þar eru mörg vötn og eitt þeirra er stærsta stöðuvatn á eyju í heiminum, Nettilling lake.
STÆRSTA EYJAN Í VATNI. Lake Huron er hið næst stærsta af vötnunum miklu milli Bandaríkjanna og Kanada og þriðja stærsta ferskvatnsvatn heims. Þar er líka að finna Kanadísku eyjuna Manitoulin Island sem er stærsta eyja í heimi í vatni.
STÆRSTA EYJA Í VATNI Á EYJU. Næst förum við suður í hitabelti Asíu og erum komin til Súmötru - stærstu eyju sem tilheyrir Indónesíu eingöngu, og sjöttu stærstu eyju í heimi. Á Súmötru er Toba vatn og í því vatni er stór eyja sem nefnist Pulau Samosir og mun vera stærsta eyja í heimi sem er í vatni á eyju.
STÆRSTA VATN Á EYJU Í VATNI. Aftur förum við til Kanadísku eyjarinnar Manitoulin í Lake Huron. Ekki nóg með að hún sé stærsta eyjan á vatni, heldur er þar líka að finna Lake Manitou sem er stærsta vatn á eyju í vatni. En svo er meira:
STÆRSTA EYJA Í VATNI Á EYJU Í VATNI. Vestan við Lake Manitou er Lake Mindemoya og þar er dálítil nafnlaus eyja sem er hvorki meira né minna en stærsta eyja í vatni á eyju í vatni í heiminum.
STÆRSTA VATN Á EYJU Í VATNI Á EYJU. Luzon er nafnið á stærstu eyju Filippseyja. Skammt þar suður af höfuðborginni Manilla er stór askja gamallar risaeldstöðvar með stöðuvatni er nefnist Lake Taal. Í því vatni er allstór eldfjallaeyja með gíg fullum af vatni er nefnist Crater Lake sem myndaðist í eldgosi árið 1911. Það er stærsta vatn í heimi á eyju í vatni á eyju.
Í Crater Lake er síðan lítil eyja sem kölluð er Vulcan Point og er hún
STÆRSTA EYJA Í VATNI Á EYJU Í VATNI Á EYJU Í HEIMINUM.
Þarna sést umrædd smáeyja Vulcan Point í Crater Lake á Filippseyjum
- - - - -
Heimildir: http://www.elbruz.org/islands/Islands%20and%20Lakes.htm
Kortin eru unnin upp úr Google Maps
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2013 | 21:46
Fata Morgana
Í sjónvarpsþáttunum Merlín er farið yfir sögu Arthúrs konungs og eilífa baráttu hans við hina rammgöldróttu hálfsystur sína sem þráir ekkert heitara en að setjast sjálf í hásæti drottningar í konungsríkinu Kamelot. Þrátt fyrir vopnafimi sína og harðskeitta riddara hringborðsins er við ramman reip að draga í þessari baráttu við myrkraöflin og staðan vonlaus frá upphafi ef ekki nyti við skósveinsins og laumugaldramannsins Merlín sem iðulega bjargar Arthúri með kyngikrafti sínum úr launsátri.
Þessi vafasama hálfsystir, Morgana, umbreyttist til hins verra eftir lát föður þeirra og undi því illa að Arthúr settist í konungssæti þar sem hann hélt áfram baráttu föður síns gegn fólki af galdrakyni. Það styttist í endalokin í sjónvarpsþáttunum og má vera að þá komi sælueyjan Avalon við sögu þar sem allt vex og dafnar með sjálfbærum hætti í eilífum friði.
Þessar fornu sagnir um Arthúr konung og allt þetta lið eru sveipaðar miklum og fornum ævintýraljóma og enginn veit með vissu hvar þetta Kamelot á að hafa verið eða hvort eitthvað í líkingu við það hafi yfirleitt verið til. Böndin berast þó að Bretlandi eftir að hernámi Rómverja lauk á 5. öld. Arthúr gæti sjálfur hafa verið kominn af Rómverjum og hann gæti hafa verið maðurinn á bak við sigur innfæddra gegn innrásarher Saxa. Sögurnar áttu það til að breytast með tíð og tíma og ýmsu blandað saman héðan og þaðan. Hin goðsagnakennda Morgana hefur lengi verið þekkt og var hún nefnd á nafn á 12. öld sem Morgan Le Fay sem ríkti ásamt systrum sínum á Avaloneyju (Eplaeyju) þar sem þær lögðu stund á lækningalist. Þar líknaði Morgana sjálfum Arthúri konungi eftir lokabardaga sinn. Hvernig hún átti síðan eftir að verða hin vonda hálfsystir Arthúrs í seinni tíma útgáfum skal ég ekki segja um nema hún hafi alltaf verið það. Allt er þetta mjög snúið.
Hitt er svo annað mál að sjálf Morgana tengist hinu þrönga Messína-sundi milli Ítalíu og Sikileyjar á þann hátt að þar er nefnt eftir henni fyrirbæri það sem við köllum hillingar sem munu vera mjög algengar þar suðurfrá yfir sjóndeildarhringum. Ítölum hefur af einhverjum ástæðum þótt við hæfi að kenna þetta við töfra Morgönu eða Fata Morgana - kannski með einhverri tilvísun í töfraeyjuna Avalon.
Ef við förum út í hillingafræði þá fara málin ekki síður að vera snúin. Mirage mun vera heildarheitið yfir svona fyrirbæri á ýmsum erlendum tungum og er þá átt við ýmiss konar afbökun þess sem við sjáum þegar hitahvörf í lofti koma við sögu, aðallega þó neðst við sjóndeildarhring.
Svona hillingar geta ýmist komið fram vegna hitauppstreymis og kulda.
Í hitauppstreymi einkennast hillingar af speglun himinsins niðri við jörð rétt undir sjóndeildarhring og eru gjarnan mjög óstöðugar og hálfpartinn dansandi, og þá koma fram þessir pollar eins og gjarnan virðast sjást í fjarska á malbikuðum vegum og eyðimörkum.
Hillingar eru líka algengar á köldum svæðum eins og t.d. yfir ísbreiðum norðurhjarans og yfir sjávarflötum á köldum og stilltum dögum. Við þær aðstæður myndast sjónræn upplyfting og geta fyrirbæri þá birst okkur sem í raun ættu að vera undir sjóndeildarhring. Við þekkjum það á landi þegar fjöllin á Snæfellsnesi rísa upp úr öllu valdi með miklum þverhníptum klettabeltum neðst. Þessar hillingar eru stöðugar enda er kalda loftið neðst ekki á hreyfingu upp, ekki frekar en það gerir venjulega.
Þær hillingar sem kallaðar eru Fata Morgana eiga hinsvegar við flóknustu tegundir hillinga og samanstanda bæði af upplyftingum og speglunum og geta komið fram bæði á heitum og köldum svæðum. Fjöll, hús og skip í fjarska geta þá virst svífa í lausu lofti yfir sjóndeildarhring og stundum jafnvel á hvolfi. Draugaskipið Hollendingurinn fljúgandi er jafnvel talið geta hafa verið svona fyrirbæri en það fley var dæmt til að sigla um heimsins höf án þess að komast nokkru sinni að höfn.
Við sem erum af Tinnakynslóðinni þekkjum auðvitað hina óútreiknanlegu Fötu Morgönu samanber eyðimerkurævintýri hinna háleynilegu Skafta og Skapta í bókinni Svarta gullið þar sem þeir urðu hvað eftir annað fyrir barðinu á "Morgunfötunni" sem ætíð tókst að leika á þá. Hvort um sé að ræða rétta skilgreiningu á Fata Morgana er þó spurning miðað við það sem ég hef reynt að finna út hér að ofan.
- - - - -
Meðal heimilda:
http://en.wikipedia.org/wiki/Morgan_le_Fay
http://en.wikipedia.org/wiki/Fata_Morgana_(mirage)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2013 | 22:34
Big Country - The Crossing
Ég hef stundum brugðið út af vananum og fjallað um hljómsveitir eða grammófónsplötur sem skiptu máli í mínu tónlistaruppeldi. Þegar maður var á menntaskólaaldri var ekkert sjálfsagt mál að fjárfesta í heilli hljómplötu enda var slík ákvörðun iðulega vel ígrunduð. Maður var alltaf opinn fyrir einhverju nýju og spennandi í músíkinni hvort sem það var í gegnum plötudóma í blöðunum, eða með áhorfi á Skonrokkið í Sjónvarpinu.
Það hefur þó sennilega verið í útvarpsþætti á Rás2 árið 1984 að ég heyrði fyrst talað um skosku hljómsveitina Big Country þar sem hljómsveitin var til umfjöllunar ásamt hinni írskættuðu U2, sem einnig var að kveða sér hljóðs á þessum árum. Fremstur í flokki Big Country var söngvari og aðallaghöfundur hljómsveitarinnar, Stuart Adamson - mikið gítarséní sem gat meðal annars látið rafmagnsgítarinn hljóma eins og sekkjarpípur og fleira í þeim dúr og gaf þannig hljómsveitinni ákveðinn etnískan tón.
Þetta hljómaði allt mjög áhugavert og fyrr en varði var ég búinn að eignast fyrstu breiðskífu sveitarinnar, The Crossing og varð ekki fyrir vonbrigðum enda eðalgripur á ferð. Umslagið var sterkt og stílhreint þar sem lógó sveitarinnar var silfurþrykkt á bláan bláan flöt. Textablaðið var skreytt pennateikningum í anda Enid Blyton-bókanna en textarnir tengdust ýmis konar raunum sem erfitt er að fást við. Þetta var ekki létt plata. Best naut platan sín á háum styrk í heyrnatólum og eftir hverja hlustun sat eitthvað eftir sem varð til þess að hún rataði alltaf aftur á fóninn - hafi hún á annað borð farið þaðan.
Big Country er ekki stórt nafn í tónlistarsögunni í dag, sem er annað en hægt er að segja um kollega þeirra í U2 sem átti aldeilis glæsilegan feril framundan. Það heyrist sjaldan í þeim á útvarpsstöðvunum nú til dags en gerist þó stöku sinnum. Þekktasta lagið af The Crossing er sennilega fyrsta lag plötunnar, In a Big Country sem annaðhvort dregur nafn sitt af hljómsveitinni eða öfugt en upphaflega mun The Big Country hafa verið nafn á Amerískri kúrekamynd.
Það er þó ekki mikill kúrekabragur á hljómsveitinni, kannski frekar skoskur hálandabragur með dálitlu "eightís" yfirbragði. Kannski var þetta eightís yfirbragð einmitt vandi Big Country-manna þegar á leið - þeir þróuðust ekki áfram í tíðarandann sem tók við með hljómsveitum á borð við Nirvana og Metallica að ógleymdum hinum tilraunaglöðu U2. Þeir vildu þó gera meira og verða stærra nafn t.d. í Bandaríkjunum en raunin varð á og eru reyndar ekki einir um það. Ég keypti einnig aðra breiðskífu sveitarinnar, Steeltown. Sú er mjög góð á köflum en ekki eins góð í heildina finnst mér. Frá Big Country komu líka tvö mjög frambærileg smáskífulög sem rötuðu ekki á breiðskífur. Það eru lögin Wonderland og Look away sem eru meðal þeirra þekktustu laga.Big Country hætti á tímabili en er þó starfandi með hléum í dag með nýjum söngvara (ekki góðum). Því miður fór ekki vel fyrir Stuart Adamson því eftir talsverða óreglu tók hann sitt eigin líf árið 2001 og er hans sárt saknað af mörgum en með fráfalli hans hefur hljómsveitin öðlast vissan ódauðlegan sess ef svo má að orði komast.
Það er nauðsynlegt að enda tónlistarpistil með tónlist og fyrir valinu er lokalag plötunnar The Crossing, Porrohman - í lifandi flutningi frá eldri tíð. Þetta er mikið lag, sjö og hálf mínúta. Glæsilegur hrynjandi og rafmagnsgítarspil sem lítið er truflað af söng fyrstu 5 mínúturnar og með sýnishorni á þriðju mínútu hvernig á að láta gítar hljóma eins og sekkjarpípur. Það er þó spurning hvort seinasti hluti lagsins standi alveg undir væntingum eftir þetta mikla og glæsilega forspil. Það er þó alveg þess virði að setja heyrnatólin á sig og hækka vel í græjunum, hlusta svo aftur á morgun og líka daginn þar á eftir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)