Big Country - The Crossing

Ég hef stundum brugðið út af vananum og fjallað um hljómsveitir eða grammófónsplötur sem skiptu máli í mínu tónlistaruppeldi. Þegar maður var á menntaskólaaldri var ekkert sjálfsagt mál að fjárfesta í heilli hljómplötu enda var slík ákvörðun iðulega vel ígrunduð. Maður var alltaf opinn fyrir einhverju nýju og spennandi í músíkinni hvort sem það var í gegnum plötudóma í blöðunum, eða með áhorfi á Skonrokkið í Sjónvarpinu.

BC The CrossingÞað hefur þó sennilega verið í útvarpsþætti á Rás2 árið 1984 að ég heyrði fyrst talað um skosku hljómsveitina Big Country þar sem hljómsveitin var til umfjöllunar ásamt hinni írskættuðu U2, sem einnig var að kveða sér hljóðs á þessum árum. Fremstur í flokki Big Country var söngvari og aðallaghöfundur hljómsveitarinnar, Stuart Adamson - mikið gítarséní sem gat meðal annars látið rafmagnsgítarinn hljóma eins og sekkjarpípur og fleira í þeim dúr og gaf þannig hljómsveitinni ákveðinn etnískan tón.

Þetta hljómaði allt mjög áhugavert og fyrr en varði var ég búinn að eignast fyrstu breiðskífu sveitarinnar, The Crossing og varð ekki fyrir vonbrigðum enda eðalgripur á ferð. Umslagið var sterkt og stílhreint þar sem lógó sveitarinnar var silfurþrykkt á bláan bláan flöt. Textablaðið var skreytt pennateikningum í anda Enid Blyton-bókanna en textarnir tengdust ýmis konar raunum sem erfitt er að fást við. Þetta var ekki létt plata. Best naut platan sín á háum styrk í heyrnatólum og eftir hverja hlustun sat eitthvað eftir sem varð til þess að hún rataði alltaf aftur á fóninn - hafi hún á annað borð farið þaðan.

GC teikningBig Country er ekki stórt nafn í tónlistarsögunni í dag, sem er annað en hægt er að segja um kollega þeirra í U2 sem átti aldeilis glæsilegan feril framundan. Það heyrist sjaldan í þeim á útvarpsstöðvunum nú til dags en gerist þó stöku sinnum. Þekktasta lagið af The Crossing er sennilega fyrsta lag plötunnar, In a Big Country sem annaðhvort dregur nafn sitt af hljómsveitinni eða öfugt en upphaflega mun The Big Country hafa verið nafn á Amerískri kúrekamynd.

Það er þó ekki mikill kúrekabragur á hljómsveitinni, kannski frekar skoskur hálandabragur með dálitlu "eightís" yfirbragði. Kannski var þetta eightís yfirbragð einmitt vandi Big Country-manna þegar á leið - þeir þróuðust ekki áfram í tíðarandann sem tók við með hljómsveitum á borð við Nirvana og Metallica að ógleymdum hinum tilraunaglöðu U2. Þeir vildu þó gera meira og verða stærra nafn t.d. í Bandaríkjunum en raunin varð á og eru reyndar ekki einir um það. Ég keypti einnig aðra breiðskífu sveitarinnar, Steeltown. Sú er mjög góð á köflum en ekki eins góð í heildina finnst mér. Frá Big Country komu líka tvö mjög frambærileg smáskífulög sem rötuðu ekki á breiðskífur. Það eru lögin Wonderland og Look away sem eru meðal þeirra þekktustu laga.

BigCountry_hljómsveit2Big Country hætti á tímabili en er þó starfandi með hléum í dag með nýjum söngvara (ekki góðum). Því miður fór ekki vel fyrir Stuart Adamson því eftir talsverða óreglu tók hann sitt eigin líf árið 2001 og er hans sárt saknað af mörgum en með fráfalli hans hefur hljómsveitin öðlast vissan ódauðlegan sess ef svo má að orði komast.

Það er nauðsynlegt að enda tónlistarpistil með tónlist og fyrir valinu er lokalag plötunnar The Crossing, Porrohman - í lifandi flutningi frá eldri tíð. Þetta er mikið lag, sjö og hálf mínúta. Glæsilegur hrynjandi og rafmagnsgítarspil sem lítið er truflað af söng fyrstu 5 mínúturnar og með sýnishorni á þriðju mínútu hvernig á að láta gítar hljóma eins og sekkjarpípur. Það er þó spurning hvort seinasti hluti lagsins standi alveg undir væntingum eftir þetta mikla og glæsilega forspil. Það er þó alveg þess virði að setja heyrnatólin á sig og hækka vel í græjunum, hlusta svo aftur á morgun og líka daginn þar á eftir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill hjá þér um eina af mínum uppáhalds hljómsveit

Guðmundur Hilmarsson (IP-tala skráð) 5.10.2013 kl. 14:04

2 identicon

Fannst Írar og Skotar vera með jafngóð tromp   kringum 1984, Skotar með  Big Country en frændur þeirra Írar með U2. Svo dró í millum með keltunum.

HÖRÐUR H. (IP-tala skráð) 5.10.2013 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband