Hitt og þetta um tímatalið

Sólarlag 30. desember 2009

Nú þegar þessu ári lýkur eru heil 2009 ár frá upphafspunkti tímatals okkar sem er 1. janúar árið 1. Sú dagsetning markar þó ekki upphaf þeirrar hefðar að byrja hvert ár 1. janúar, því áramót höfðu verið haldin þann dag í Rómaveldi frá því þeir tóku upp sitt júlíanska tímatal árið 153 fyrir krist. Engin breyting varð á því þegar hið gregóríska tímatal okkar daga var tekið upp árið 1582. Árið 1 höfðu spurnir af fæðingu Jesúbarnsins ekki borist víða meðal jarðneskra manna og því voru ýmsar aðrar viðmiðanir í tímatalinu notaðar. Rómverjar miðuðu tímatalið gjarnan við stofnun borgarinnar árið 753 f.Kr. og samkvæmt því er fyrsta ár okkar tímatals það sama og árið 754 að hætti forn-Rómverja. Gyðingar miðuðu hins vegar tímatal sitt við sköpun heimsins sem átti sér stað 3671 f.Kr. samkvæmt fróðustu mönnum þess tíma. Það var þó ekki fyrr en árið 525 sem byrjað var að miða ártalið við fæðingu Krists og var þá miðað við útreikninga talnaspekingsins og munksins Dionysiusar Exiguusar - Anno Domini tímatalið.


Ef við horfum framhjá vangaveltum um það hvort fæðing Jesú sé rétt tímasett og miðum við það tímatal sem við notum í dag, þá er ljóst að Jesú fæddist á jólunum, um viku áður en fyrsta ár tímatals okkar gekk í garð. Fyrsta árið er að sjálfsögðu árið eitt og því fæddist Jesú undir lok ársins eitt fyrir Krist. Hann var því um viku gamall á núllpunkti tímatals okkar og er því 2009 ára og einnar viku gamall nú um áramótin. Árið núll var hinsvegar aldrei til enda þekktu vestrænir menn ekki einu sinni það hugtak á þessum tímum og þótt þeir hefðu gert það breytir það því ekki að núll getur ekki staðið fyrir tímabil eins og ár, sem á sér bæði upphaf og endi.

Það var mikið skrafað um það kringum árið 2000 hvenær halda skyldi upp á aldamót, svo ekki sé talað um árþúsundamót. Minn skilningur á því (sem auðvitað er hinn eini rétti og sanni) er sá að ný öld hefst alltaf í upphafi árs sem er með 01 í endann. Núverandi öld og árþúsund hófst þann 1. janúar 2001 þegar nákvæmlega tvöþúsund ár voru liðin frá upphafspunkti tímatalsins eða viku eftir að Jesú hélt upp á tvöþúsund ára afmæli sitt.

Af þessum fyrsta áratug þessarar aldar er 10. árið eftir, sem einmitt er árið 2010. Þessi skilningur er þó ekki allstaðar hafður uppi, t.d. ekki í Bretlandi þar sem þegar er búið að velja „hitt og þetta“ áratugarins. Til dæmis er búið að útnefna þennan áratug þann heitasta á jörðinni frá upphafi mælinga, svo maður komi því nú að. Þar er átt við árin 2000-2009 og talað um „the first decate of the century“.  Þetta breytir því þó ekki að hinn raunverulegi fyrsti áratugur þessarar aldar verður nánast örugglega sá heitasti á jörðinni frá upphafi mælinga, þó að eitt ár sé eftir. Annars ætlaði ég ekki að fara út í svoleiðis hitamál núna, en á nýju ári mun ég hinsvegar koma með alveg sjóðandi heit veðuruppgjör fyrir liðið ár að hætti hússins. Áratugsuppgjör læt ég hins vegar bíða í eitt ár enn.

Ýtarlegri og örlítið gáfulegri vangaveltur um tímatalið má finna hér á vísindavefnum:
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6912

Frosin rauð jól í Reykjavík

24des09

Þannig líta jólin út í Reykjavík í ár. Bjart yfir á meðan sólar nýtur og auð jörð bæði á láglendi og til fjalla. Það er því fátt sem minnir á að það sé hávetur ef ekki væri fyrir frostið sem bitið hefur borgarbúa og aðra landsmenn undanfarið. Snjórinn sem safnast hafði fyrir í Esjunni fyrr í vetur hvarf að mestu í hlýindakaflanum fyrri hluta mánaðarins þegar hitinn náði allt að 10 stigum. Núna undanfarna daga hefur þetta snúist rækilega við og frostið komist niður í 10 stig en á þess að nokkuð hafi náð að snjóa. Vatnsbrunnurinn á norðanverðu Seltjarnarnesi stendur hinsvegar alveg svellkaldur í sínum klakaböndunum.

G L E Ð I L E G   J Ó L


Hitafar heimsins kortlagt

Undanfarið hafa miklir kuldar gengið yfir Evrópu og frést hefur af metsnjókomu í höfuðborg Bandaríkjanna. Þetta er vitanlega ekki góð auglýsing fyrir hlýnun jarðar sem einmitt hefur verið mál málanna undanfarið. En þótt kalt hafi verið víða á norðurhveli, þarf svo ekki að vera allstaðar.

Hér að neðan má sjá afrakstur dálítillar vinnu þar sem ég hef safnað saman mörgum hitakortum og raðað í eitt heimskort, en hvert fyrir sig sýnir frávik frá meðalhita á hverjum stað vikuna 13-19. desember. Kortin fékk ég á vef Bandarísku veðurstofunnar NOAA, þau ná að vísu ekki að dekka allan heiminn, t.d. vantar Íslandið okkar, Grænland og meginhluta Afríku. Þetta gefur þó sæmilega mynd af því hvað er að gerast. (Til að fá kortið stærra er hægt hægt að smella á það nokkrum sinnum)

heimshitakort

Samkvæmt þessu korti var hiti síðustu viku vel undir meðallagi nánast allan hringinn á hinum norðlægari slóðum allt frá Kanada til Evrópu, Síberíu og til norðurhluta Kína. Ég ímynda mér að þetta sé frekar óvenjulegt því yfirleitt ætti hlýtt loft að gera atlögu að norðurslóðum einhverstaðar til mótvægis við kuldana sem streyma úr norðri. En kannski á þetta sér þær eðlilegu skýringar að ísöldin sé að skella á fyrir fullt og allt eða bara næstu hundrað þúsund árin eða svo.

En heimurinn er stór og ekki þarf að hafa áhyggjur af því að íbúar annarra heimshluta séu að krókna úr kulda. Í Bandaríkjunum var hiti mjög breytilegur eftir svæðum, Mið- og Suður-Ameríka er hlýrri en í meðallagi. Hlýtt er yfirleitt í Afríku af þeim svæðum sem sjást, einnig í Miðausturlöndum, suðurhluta Asíu og Ástralíu. Svo verður að hafa í huga að þarna vantar öll hafssvæðin og heimskautin, en það telur drjúgt þegar meðalhiti jarðarinnar er metinn.

Kannski er of mikið sagt að ísöldin sé að skella á. Hitafar jarðar á sér marga útúrdúra. Þessir vetrarkuldar á norðurhveli breyta engu um að árið 2009 verður meðal allra hlýjustu ára sem mælst hafa. Árið verður örugglega hlýrra en árið 2008 og endar nálægt meðalhita þessa áratugar sem er sá hlýjasti sem komið hefur frá upphafi veðurmælinga og miklu lengur en það.

- - - -

Kortin sem ég notaði er hægt að finna á þessari slóð: http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/analysis_monitoring/regional_monitoring/

Hægt að fara í hvern heimshluta og velja viku-, mánaðar- og 3ja mánaða kort. Til að fá frávik frá meðalhita er farið í Temperature Anomaly, en svo er líka hægt að kalla fram aðrar upplýsingar. Kannski mun ég setja saman svona kort saman aftur síðar og birta. Vonandi þó ekki svona kuldalegt.


Um loftslagspólitík, loftslagsvísindi og loftslagstrúarbrögð

Þó ég hafi oft og mörgum sinnum blandað mér í loftslagsumræðuna hér á blogginu þá hef ég eiginlega algerlega látið fram hjá mér fara þessa miklu loftslagsráðstefnu sem fram hefur farið í snjókomunni í Kaupmannahöfn. Ég vil þó ekkert gera lítið úr því sem þar hefur farið fram enda er málefnið stórt og krefst mikilla fórna af íbúum jarðar. Það er kannski bara þessi pólitíska hlið á málinu sem ég nenni ekki að fylgjast með og er því varla viðræðuhæfur um það sem rætt hefur verið um í Köben. Ég held að ég hafi þó séð forseta Frakklands tala um það að menn væru ekki þangað komnir til að ræða um loftslagsmál heldur aðgerðir, sem er sjálfsagt alveg rétt, ráðstefnan var ekki vettvangur til að deila um hvort maðurinn ætti sök á loftslagshlýnun því að loftslagsfræðingar segjast þegar vera búnir að komast að því að svo sé.

Það er auðvitað ekki hlutverk stjórnmálamanna að hrekja vísindin, þeirra hlutverk er að ræða pólitík og aðgerðir í loftslagsmálum eru pólitík. Það eina sem stjórnmálamenn þurfa í raun að vita í þessu máli er að aukin útblástur gróðurhúslofttegunda veldur hlýnun sem hefur slæmar afleiðingar fyrir mannkynið í framtíðinni og því þarf að minnka útblástur með pólitísku samkomulagi. Að komast að því samkomulagi er hins vegar erfitt, því það krefst fórna.

Það eru alls ekki allir vera sannfærðir um að maðurinn hafi áhrif á loftslag jarðar, kalla þetta jafnvel trúarbrögð sem á auðvitað að vera niðrandi og vísar til þess að það sé ekki vísindaleg hugsun að baki afstöðu þeirra sem boða hlýnun jarðar af mannavöldum. Samt er það nú svo að kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum er afrakstur vísindamanna en ekki heimsendaspámanna. Það má kannski deila um ýmsa hluti eins og hvort hlýrra hafi verið fyrir þúsund árum eða ekki og hvort einhverjar hokkýkylfur séu réttar eða ekki, enda er óvissa alltaf á ferðinni í þessum málum. Það getur líka vel verið að einhverjir vísindamenn hafi í auglýsingaskyni freistast til að hagræða einhverjum upplýsingum. Hvað sem því líður eru flestir loftslagsvísindamenn samt gallharðir á því að núverandi hlýnun jarðar sé bara rétt byrjunin á þeirri miklu hlýnun sem framundan er á næstu öldum, nema gripið verði til róttækra aðgerða. Við þurfum ekkert að tala um hvort þetta ár verði hlýrra en það síðasta, og það þarf ekkert að velta sér upp úr því þótt ekkert hlýni á jörðinni í 10-20 ár. Þessi hægfara hlýnun á sér stað í misstórum skrefum með afturkippum inn á milli og hlýnunin er þolinmóð og mun lifa okkur öll. Þó maður lesi endalausar greinar um loftslagsmál skrifaðar af hörðustu efasemdarmönnum eða sannfærðum vísindamönnum, þá get ég sem óbreyttur bloggari og borgari ekkert dæmt um það hvort kenningin sé rétt eða ekki. Ég treysti bara vísindasamfélaginu fyrir þessu. Hverjum ætti maður annars frekar að treysta og trúa í þessum málum? Prestum?

Ef vísindasamfélagið er meira og minna sammála því að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum, þá er það líka á ábyrgð vísindasamfélagsins að þær fullyrðingar séu réttar. Ef hin vísindalega þekking segir að hér sé allt að fara til fjandans ef ekkert verður að gert, þá er ábyrgðarleysi að hunsa þær viðvaranir. Við getum þó alltaf gert okkur vonir um að með meiri þekkingu komi í ljós að hættan hafi verið stórlega ofmetin. En á meðan svo er ekki, þá er léttvægt að afgreiða tal um hlýnun jarðar sem trúarbrögð. Það er hins vegar alveg spurning hversu auðvelt er að bregðast við hlýnun jarðar. Ég sé reyndar ekki fyrir mér annað en að mannkynið muni næstu eina eða tvær aldir nýta allar vinnanlegar olíubirgðir heimsins sem eftir eru og gengdarlaus kolamokstur mun halda áfram þar sem kol eru að finna, hvað sem öllu samkomulagi líður. Í þessu sambandi má taka dæmi frá borginni Peking þar sem bílum hefur fjölgað um eina milljón á tveimur árum og þá erum við bara að tala um eina borg í Kína eins og kom fram í frétt um daginn. Það hefur því lítið sem ekkert að segja ef allir Íslendingar hætta að aka sínum hundrað þúsund bílum í þessum samanburði. 

Kannski er alveg eins mikilvægt að komast að því hvernig mannkynið geti lifað sem bestu lífi í hlýnandi heimi heldur en að eyða púðri í að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem við getum ekki stöðvað. Kannski eru afleiðingar hlýnunar ekki eins slæmar og af er látið, en kannski er það bara óskhyggja í mér.


mbl.is Ban: Nauðsynlegt fyrsta skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef við berum ekki ábyrgð á ICESAVE

Ég hef aldrei ætlað mér að blanda mér inn í ICESAVE umræðuna, en það er ein hlið á þessu máli sem mér finnst að mætti skoða nánar. Segjum að það sé þannig eins og sumir vilja halda fram, að íslenska ríkinu beri engin skylda til að ábyrgjast innstæður á útibúum einkabanka erlendis, má þá ekki líta á svona ICESAVE reikninga sem alveg tilvalda leið fyrir íslenska banka í framtíðinni? Ef íslenskur einkabanki þarf að fjármagna sig með innlánum er miklu sniðugra fyrir okkur að hann leiti til almennings erlendis, því ef bankinn fer yfirum þá þurfum við ekkert að bera neina ábyrgð, jafnvel þótt peningarnir renni beint til Íslands.

Ef skilningur þeirra sem telja okkur ekki bera neina ábyrgð er réttur, þá hefðu íslensku bankarnir kannski átt að vera miklu duglegri við að plata fólk til að leggja sparnaðinn í útibú íslenskra banka og kannski hefði bankakerfið okkar bjargast ef svona ICESAVE reikningar hefðu slegið í gegn í allri Evrópu. Reyndar þótti ICESAVE lengi vera alger snilld þangað til einhverjum datt í hug að við þyrftum að borga aumingjans fólkinu til baka sem var svo vitlaust að treysta íslenskum banka til að ávaxta peningana sína. ICESAVE átti aldrei að vera nein góðgerðastofnun því til þess var fyrst og fremst stofnað til að fjármagna Landsbankann þegar harðna tók í ári, en dugði því miður ekki til.

Í framhaldi af þessu vil ég leggja til að ef svo fer að við berum enga ábyrgð á ICESAVE þá ættum við að einkavæða Landsbankann hið snarasta, skipta kannski um nafn á honum og fá almenning erlendis til að leggja aleigu sína í útibú bankans með loforði um metávöxtun. Ef bankinn fer yfirum þurfum við engar áhyggjur að hafa, því tjónið verður ekki okkar. Við getum kannski ekki leikið sama leikinn aftur í Bretlandi eða Hollandi, en hvað um Bandaríkin? Þar er mikið af fólki sem hægt er að féfletta.

Siðferðislegu hliðin á þessari leið er auðvitað ekki upp á marga fiska en hún virðist vera algert aukatriði þegar peningar eru í spilunum - sérstaklega þegar við erum að tala um að hafa peninga af útlendingum. En ef við viljum aftur á móti vera áfram í hópi siðaðri þjóða er varla um annað að ræða en að gangast við okkar hluta af þeim skaða sem útibú íslenskra banka hafa valdið almenningi erlendis. Þótt það sé ekki réttlátt að íslenskur almenningur þurfi að bera ábyrgð á skuldum einkafyrirtækja, þá stöndum við allavega nær þeim bönkum en almenningur erlendra ríkja   … eða það held ég alla vega.


Nokkur misjafnlega mislæg gatnamót

Þó að Reykjavík sé ekki fjölmenn borg má þar finna mikil umferðarmannvirki. Mislæg gatnamót er til í ýmsum útgáfum og þau geta verið miseinföld eða -flókin. Stundum hafa óvanir ökumenn farið flatt á því að misskilja fráreinarnar eða aðreinarnar og farið norður og niður í staðinn fyrir út og suður. Sem er ekki gott. Hér á eftir koma nokkur dæmi um mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og víðar. 

Arnarneshæð

Einfaldasta gerð mislægra gatnamóta er væntanlega þessi tegund, sem má finna á Arnarneshæð þar sem Arnarnesvegur liggur um brú yfir Hafnarfjarðarveg. Þessi gatnamót taka lítið landrými en við sitt hvorn brúarendann eru umferðarljós, stundum eru þar hringtorg ef pláss leyfir.

- - - - - 

Höfðabakkabrú
Höfðabakkabrúin er öllu stærri um sig enda mikil umferð úr öllum áttum. Almennt er útfærslan á vinstri beygjum helsti munurinn á mislægum gatnamótum. Hér eru vinstri beygjurnar látnar skerast uppi á brúnni og ein allsherjar umferðarljós stjórna umferðinni þar. Umferð um Vesturlandsveg fer óhindruð undir brúna en Höfðabakkaumferðin þarf að hinkra eftir vinstri-beygju-bílunum. Misjafnt er hvort hægri-beygju-bílar þurfi að stoppa á ljósum. Hér er eins gott að fá ekki víðáttubrjálæði uppi á brúnni og týna ekki akreininni sinni.

- - - - -

Réttarholtsvegur

Tveggja slaufu gatnamót þar sem Réttarholtsvegur fer yfir Miklubraut og verður að Skeiðarvogi. Þegar kemur að þessari gerð gatnamóta fara málin að flækjast því þeir sem ætla að beygja til hægri inn á Miklubraut þurfa að stoppa á ljósum og beygja til vinstri inn á slaufu sem leiðir þá inn á Miklubraut áður en þeir koma að brúnni. Þeir sem hinsvegar ætla til vinstri og inn á Miklubraut þurfa ekkert að stoppa á ljósum og fara rakleiðis til hægri inn í slaufuna. Samskonar gatnamót eru þar sem Miklabrautin verður að Hringbraut (áður Miklatorg).

- - - - -

Elliðáarbrú

Niðri við Elliðavog erum við svo með elstu mislægu gatnamótin í Reykjavík og einu fullkomnu fjögurra-slaufu-gatnamót landsins. Hér er ekkert verið að spara landrýmið enda eru slaufurnar feiknastórar. Umferðin rennur hindranalaust í allar áttir því að allar vinstri beygjur fara um slaufurnar og hægri beygjurnar liggja þar utan með. Þetta eru þar með einu mislægu gatnamótin á landinu þar sem hægt er að bruna í gegn ofan brúar sem neðan án hindrunar af umferðarljósum eða hringtorgum.

- - - - -

LA-fjögurra

Hér erum við komin út fyrir landsteinanna og til hinnar miklu bílaborgar Los Angeles. Þar má finna þessa gerð af gatnamótum þar sem öll umferðin gengur hindranalaust fyrir sig en í stað slaufa eru vinstri beygjurnar á sér hæðum þannig að alls eru fjórar hæðir á gatnamótunum. Neðst eru tvær vinstri beygjur, síðan bein hraðbraut, tvær vinstri beygjur þar fyrir ofan og efst er hin hraðbrautin. Með þessu sparast heilmikið landrými miðað við slaufugatnamót en mannvirkið er mikið.

- - - - -

LA flækja

Þessa flækju sem einnig er í Los Angeles ætla ég ekki að reyna að útskýra en hætt er við að einhver utanbæjarmaðurinn fari villur vegar í þessu völundarhúsi. Lífið er ekki alltaf einfalt.

- - - -

Læt þetta duga að sinni en er þó að hugsa um að halda áfram í bílaleik í næstu færslu sem verður þó með allt öðru sniði.

Loftmyndirnar eru fengnar af kortavef ja.is og google maps
 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband